Innlent

Adolf Ingi leiðir fyrsta hóp er­lendra ferða­manna um landið

Jakob Bjarnar skrifar
Adolf Ingi er kominn á stjá með hóp erlendra ferðamanna, átta Bandaríkjamenn fara nú kátir hringinn. Til stendur að ljúka leiðangrinum við gosið.
Adolf Ingi er kominn á stjá með hóp erlendra ferðamanna, átta Bandaríkjamenn fara nú kátir hringinn. Til stendur að ljúka leiðangrinum við gosið. aðsend

Ferðaþjónustan er komin í fyrsta gír. Adolf Ingi Erlingsson fararstjóri með meiru er nú á ferðalagi með hóp Bandaríkjamanna, hringinn í kringum landið.

Eftir því sem næst verður komist er þetta fyrsti hópur erlendra ferðamanna sem leggur land undir fót í hópferð. Adolf Ingi er með átta Bandaríkjamenn og er nú staddur á Siglufirði. Þau lögðu upp á föstudag en ljúka ferðinni morgun með að fara á gosið.

Kanarnir kátir með að vera „pioneers“

„Við erum komin af stað,“ segir Adolf Ingi í samtali við Vísi og er á honum að heyra að honum sé létt. Honum sýnist þetta vera fyrsti hópur erlendra ferðamanna sem kominn er á stjá.

„Ég vissi að þetta var fyrsti hópurinn hjá okkur hjá Artic Adventures. Þau á hótelum og veitingastöðum reka upp stór augu. 

Við erum einskonar brautryðjendur og þeir eru hreyknir af því Kanarnir mínir, að vera „pioneers“. 

Á Djúpavogi, á hótelinu á Akureyri, Dalvík, alls staðar fyrsti hópurinn sem lætur sjá sig í átta mánuði.“

Adolf Ingi segir sína Kana vera allstaðar að frá Bandaríkjunum, Chicago, Miami, Ohio … og það gengur vel.

„En þetta er skrítið, eftir allan þennan tíma þegar ekkert hefur verið um að vera er misjafnt hvað er opið. Ákaflega rólegt og maður sér svona einn og einn ferðamann á bílaleigubílum. Og hafa verið síðustu vikuna. En þetta er fyrsti hópurinn sem þeir sjá.“

Ísland framarlega með að opna fyrir ferðamenn

Nú eru þetta eingöngu Banaríkjamenn sem koma en þeir hafa fengið bólusetningu. Og þeir eru glaðir að geta ferðast, loks, eftir að kórónuveirufaraldurinn brast á.

„Það eru ein hjón í túrnum en þetta er í fimmta skipti sem þau koma til Íslands. Þeim líkar það svo vel að þau koma aftur og aftur. Ætluðu að vera að ferðast um Rússland með Síberíulestinni frægu en það gekk ekki upp þannig að þau ákváðu að fara aftur til Íslands fyrst það stóð til boða.“

Adolf Ingi segir að svo virðist sem Ísland sé með fyrstu löndum til að opna fyrir ferðamennsku. „Það kom mér á óvart, við erum með þeim fyrstu sem erum bæði búin að opna fyrir að hingað sé hægt að ferðast og að þetta sé öruggt umhverfi,“ segir fararstjórinn káti en þegar hann kvaddi blaðamann voru Siglfirskir krakkar ávarpa hópinn á ensku, glaðir að sjá erlenda ferðamenn á ný, kannski búnir að fá sig fullsödd af hinum íslensku?


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×