Fótbolti

Írskir dagar hjá stelpunum okkar í Laugardalnum í næsta mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið fagnar hér marki á Laugardalsvellinum síðasta haust.
Íslenska kvennalandsliðið fagnar hér marki á Laugardalsvellinum síðasta haust. Vísir/Vilhelm

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Írlandi í tveimur vináttuleikjum í júní en báðir leikirnir fara fram á Laugardslvelli.

Fyrri leikurinn á móti Írlandi fer fram 11. júní en sá síðari 15. júní. Þetta verða fyrstu heimaleikir íslenska landsliðsins síðan að Þorsteinn Halldórsson tók við stöðu landsliðsþjálfara.

Leikirnir verða með síðustu vináttuleikjum liðsins fyrir upphaf undankeppni HM 2023. Ísland er þar í riðli með Hollandi, Tékklandi, Hvíta Rússlandi og Kýpur, en stelpurnar mæta Hollandi í fyrsta leik sínum í undankeppninni 21. september á Laugardalsvelli.

Liðin hafa mæst fimm sinnum í gegnum tíðina. Ísland hefur unnið tvo leiki og þrír hafa endað með jafntefli. Ísland og Írland mættust síðast 8. júní 2017 og fór leikurinn fram á Írlandi, en um vináttuleik var að ræða. Leikurinn endaði með markalausu jafntefli.

Liðin mættust einnig í umspili undankeppni EM 2009, en þar hafði Ísland betur 4-1 samanlagt. Seinni leikurinn var spilaður á ísi lögðum Laugardalsvelli en það má búast við miklu betri aðstæðum í júní.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.