Innlent

8 ára „sauðfjárbóndi“ sem les Hrútaskrána

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Helgi Fannar, 8 ára tilvonandi sauðfjárbóndi með Hrútaskrána, sem hann les spjaldanna á milli.
Helgi Fannar, 8 ára tilvonandi sauðfjárbóndi með Hrútaskrána, sem hann les spjaldanna á milli. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Þó hann sé ekki nema 8 ára er hann búin fyrir löngu að ákveða hvað hann ætlar að verða þegar hann verður stór. Hér erum við að tala um Helga Fannar Oddsson á bænum Hrafnkelsstöðum við Flúðir, sem ætlar sér að verða sauðfjárbóndi. Hrútaskráin er uppáhalds bókin hans.

Það var gaman að koma í fjárhúsið á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi og sjá Helga Fannar að störfum í miðjum sauðburði að gefa kindunum og aðstoða foreldra sína í sauðburðinum. Yngri bróðir hans, Hákon Orri, sem er fjögurra ára er líka mjög liðtækur í fjárhúsinu og verður líklega líka sauðfjárbóndi eins og Helgi Fannar ætlar sér.

„Sauðburðurinn hefur gengið vel hjá okkur, við erum með 320 fjár. Ég sé um að gefa á garðann, vatna, sópa ganginn og krærnar,“ segir Helgi Fannar aðspurður í búskapinn og helstu verkefni hans.

Bræðurnir að gefa lömbum mjólk úr flöskum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Helgi Fannar segir að það sé best ef hver kind ber tveimur lömbum.

„Já, út af því að ein rolla er með tvo spena“.

Helgi segist vera harðákveðin í að verða sauðfjárbóndi þegar hann verður fullorðinn.

Bræðurnir eru duglegir að gefa þeim lömbum sem þess þurfa mjólk úr pela. En þegar Helgi Fannar sest niður til að hvíla sig þá notar hann tækifærið og les hrútaskránna.

Hákon Orri verður líklega líka bóndi, hann hefur allavega mikinn áhuga á dráttarvélum. Hann er fjögurra ára.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Það er sko beðið eftir Hrútaskránni á hverju ári og þegar hún kemur í hús þá er ekkert annað lesið. Það er Hrútaskráin öll kvöld og hann er með bókhald utan um hvernig hrút, þannig að það er mjög skemmtilegt að fylgjast með því,“ segir Jóhanna Bríet Helgadóttir, mamma Helga Fannars.

En hefur Helgi Fannar alltaf verið svona áhugasamur um sauðfjárbúskapinn?

„Já, hann fæddist náttúrulega á Hvanneyri, því landbúnaðarsamfélagi, sem það er. Svo er þetta í öllum fjölskyldum í kringum hann, þannig að hann já, hefur alltaf verið svona svakalega duglegur,“ segir Jóhanna Bríet.

Jóhanna Bríet Helgadóttir og Helgi Fannar í fjárhúsinu á Hrafnkelsstöðum.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.