Í tilkynningu frá EBU, sem birt var á vef sambandsins í dag, segir að meðlimur íslenska hópsins hafi greinst jákvæður fyrir Covid-19 við venjubundna skimun í dag. Einstaklingurinn sé nú í einangrun og aðrir meðlimir hópsins sendir í sóttkví til að gæta fyllstu varúðar. Allur hópurinn verði sendur í PCR-próf.
„Því miður þýðir þetta að íslenski hópurinn mun ekki mæta á bláa dregilinn í dag. Við veitum frekari upplýsingar þegar þær berast og sendum bestu kveðjur til hópsins,“ segir í tilkynningunni.

Rúnar Freyr Gíslason fjölmiðlafulltrúi Eurovision-hópsins úti í Rotterdam staðfestir í samtali við fréttastofu að einn úr hópnum sé smitaður af Covid. Hann vill ekki upplýsa hver hafi greinst en segir þó að viðkomandi sé ekki í Eurovision-atriði Íslands. Sex eru í atriðinu, Daði Freyr Pétursson og fimm meðlimir Gagnamagnsins, sem stíga eiga á stokk á seinna undankvöldi Eurovision á fimmtudag.
Hópurinn bíði nú eftir fyrirmælum frá öryggisnefnd EBU og fari allur í Covid-próf í dag. Hann segir ekki hægt að segja til um það hvernig smitið barst í hópinn.
„Við teljum okkur hafa farið að öllu sem við vorum beðin um, fylgt öllum reglum þannig að við tökum þessu bara í rólegheitum.“
Jafnvel þótt svo færi að íslenski hópurinn gæti ekki stigið á svið er ljóst að Ísland yrði alltaf með í keppninni. Búið er að taka upp öll atriði keppninnar ef svo fer að einhver forfallast vegna Covid-19. Atriðin yrðu þá spiluð í stað þess að verða flutt.
Allur hópurinn bólusettur
Rúnar vill ekki upplýsa um það hvort viðkomandi sé með einkenni Covid-19. Hann geti lítið sagt á þessari stundu og hópurinn bíði átekta eftir næstu skrefum.
Allir í íslenska hópnum sem ekki höfðu fengið bólusetningu gegn veirunni voru bólusettir með bóluefni Janssen fyrir um tíu dögum, skömmu áður en haldið var til Rotterdam. Fram kemur á vef Lyfjastofnunar að bóluefni Janssen hafi um 67 prósent virkni tveimur vikum eftir bólusetningu.
Meðlimur í pólska hópnum greindist smitaður af Covid-19 í gær. Sá hafði síðast verið í Ahoy-höllinni þar sem keppnin fer fram á fimmtudaginn og þá hafði enginn í hópnum greinst smitaður. Pólski hópurinn verður því einnig fjarri góðu gamni á bláa dreglinum í dag.
Fréttin hefur verið uppfærð.