Innlent

Ekki mikil stemning fyrir sameiningu fimm sveitarfélaga

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri Rangárþings eystra.
Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri Rangárþings eystra. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Ekki er mikil stemming á meðal íbúa fimm sveitarfélaga í Rangárvallasýslu og Vestur Skaftafellssýslu um sameiningu sveitarfélaganna. Ef af sameiningunni verður þá verður til landstærsta sveitarfélag Íslands með 5.400 íbúum.

Verkefnið „Sveitarfélagið“ Suðurland hófst í desember 2019 með það að markmiði að leggja mat á það hvort hag íbúa sveitarfélaganna sé betur borgið í sameinuðu sveitarfélagi en í núverandi sveitarfélagaskipan. Nú hafa sveitarstjórnir Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra og Ásahrepps samþykkt að ganga til formlegra viðræðna um sameiningu sveitarfélaganna en kosið verður um sameininguna samhliða Alþingiskosningunum í haust. En hvernig gengur starfið í kringum sameininguna?

Lilja Einarsdóttir er sveitarstjóri Rangárþings eystra.

„Það er bara góða vinna, sem er þar í gangi. Við erum bara í rauninni að kortleggja kosti og galla til þess að geta haldið íbúafund og lagt upp fyrir íbúa hvað er verið að kjósa um. Þetta eru fimm sveitarfélög og við erum ólík að mörgu leyti en eigum auðvitað ýmisleg sameiginlegt. En það verður auðvitað algjörlega ákvörðun íbúanna okkar og kjósenda hvort af því verður eða ekki,“ segir Lilja

En hvernig metur hún stemminguna fyrir sameiningunni?

„Því miður er hún of lítil. Það er svo mikil grundvallarforsenda að fólk kynni sér hvað er verið að kjósa um af því að það er ekki gott að mæta á kjörstað ef þú veist ekki hvað er verið að kjósa um og það verður auðvitað líka til þess að það verði minni kjörsókn, þannig að ég hvet fólk til að kynna sér kosti og galla.“

Lilja segir að samþykki íbúar tillöguna verður til landstærsta sveitarfélag Íslands og þar af leiðandi stærsta skipulagsumdæmi landsins. Innan marka sveitarfélagsins yrði stór hluti hálendisins, Vatnajökulsþjóðgarður, merkar náttúruminjar og margir af helstu ferðamannastöðum landsins. Íbúar sveitarfélagsins yrðu um 5400.

En þú segir að það vanti svolítið upp á stemminguna?

„Já, mér finnst að fólki þurfi aðeins að kynna sér málin betur, það eru mín orð.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×