Fótbolti

27 dagar í EM: EM-bikarinn hefur ekki farið af Íberíu­skaganum í þrettán ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo kyssir hér EM-bikarinn eftir 1-0 sigur á Frakklandi í úrslitaleiknum á EM 2016.
Cristiano Ronaldo kyssir hér EM-bikarinn eftir 1-0 sigur á Frakklandi í úrslitaleiknum á EM 2016. EPA/GEORGI LICOVSKI

Vísir telur niður í Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst 11. júní næstkomandi. Nágrannaþjóðir hafa unnið þrjú síðustu Evrópumót.

Það þarf ekki að fara langa leið á Evrópukortinu til að finna Evrópumeistara síðustu þrettán ára en nágrannarnir á Íberíuskaganum, Spánn og Portúgal, hafa einokað titilinn frá og með EM 2008.

Spánverjar urðu fyrsta þjóðin til vinna tvö Evrópumót í röð þegar þeir unnu 2008 og 2012. Spánverjar urðu meira segja heimsmeistarar inn á milli. Portúgal vann síðan síðasta Evrópumót sem fór fram í Frakklandi sumarið 2016.

Spánn vann sinn fyrsta stóra titil í 44 ár þegar liðið vann EM 2008 eftir 1-0 sigur á Þýskalandi í úrslitaleiknum þar sem Fernando Torres skoraði sigurmarkið. David Villa, markakóngur keppninnar, missti af úrslitaleiknum vegna meiðsla. Spánn hafði slegið Ítalíu út í átta liða úrslitunum og unnið Rússland í undanúrslitunum.

Fjórum árum síðar vann spænska landsliðið 4-0 sigur á Ítalíu í úrslitaleiknum þar sem Torres var aftur á skotskónum en hin mörkin skoruðu þeir David Silva, Jordi Alba og Juan Mata. Spánverjar höfðu unnið Portúgal í vítaspyrnukeppni í undanúrslitunum en unnu Frakkland í átta liða úrslitunum.

Sigurganga Spánverja á EM endaði með 2-0 tapi á móti Ítalíu í sextán liða úrslitunum en þeir höfðu þá líka tapað síðasta leiknum sínum í riðlinum.

Portúgal vann Króatíu, Pólland og Wales á leið sinni í úrslitaleikinn þar sem Eder skoraði eina markið í framlengingu í 1-0 sigri á Frakklandi. Þetta var fyrsti sigur Portúgala á stórmóti en þeir höfðu tapað úrslitaleik EM á heimavelli árið 2004.

Síðustu tvö Evrópumeistarar hafa þó ekki náð að vinna sinn fyrsta leik á EM. Spænska liðið sem vann 2012 gerði 1-1 jafntefli á móti Ítalíu í leik og Portúgalar hófu síðasta Evrópumót á því að gera 1-1 jafntefli við okkur Íslendinga.

Síðasta þjóðin til að vinna EM sem er ekki frá Íberíuskaganum voru Grikkir en þeir unnu hins vegar titilinn á Íberíuskaganum með því að vinna úrslitaleikinn í Lissabon í Portúgal sumarið 2004.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×