Enski boltinn

Mané hunsaði Klopp eftir leikinn gegn United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sadio Mané varð að gera sér að góðu á byrja á varamannabekknum gegn Manchester United.
Sadio Mané varð að gera sér að góðu á byrja á varamannabekknum gegn Manchester United. getty/Andrew Powell

Athygli vakti að Sadio Mané tók ekki í spaðann á Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, eftir sigurinn á Manchester United í gær. Klopp gerði lítið úr atvikinu í viðtölum eftir leik.

Mané hefur ekki náð sér á strik að undanförnu og var ekki í byrjunarliði Liverpool í leiknum á Old Trafford í gær. Hann kom inn á sem varamaður þegar sextán mínútur voru eftir.

Þegar Klopp ætlaði að fagna með Mané eftir leikinn hunsaði Senegalinn þýska stjórann og gekk til búningsherbergja. Þrátt fyrir það sagði Klopp engin vandræði vera milli sín og Manés.

„Ég breytti hlutunum frekar seint á æfingu,“ sagði Klopp og vísaði til þess að hann ákvað að vera með Diogo Jota í byrjunarliðinu í stað Manés.

„Drengirnir eru vanir því að ég skýri hlutina út fyrir þeim og ég gerði það ekki þarna. Enginn tími, ég gleymdi því eða hvað það var. Þetta er allt í góðu lagi.“

Greame Souness, sérfræðingur Sky Sports, las meira í atvikið en Klopp.

„Þetta var vanvirðing. Ef ég væri stjórinn væri ég ekki ánægður. Hann ætti að sýna smá virðingu,“ sagði Souness.

„Þetta er vanvirðing gagnvart stjóranum og félaginu. Hvernig getur hann mótmælt? Hann hefur ekki átt gott tímabil og Liverpool vann leikinn, 4-2.“

Liverpool er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sextíu stig, fjórum stigum á eftir Chelsea sem er í 4. sætinu en á leik til góða. Í síðustu þremur leikjum sínum á tímabilinu mætir Liverpool West Brom, Burnley og Crystal Palace.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×