Erlent

Full­bólu­settir þurfa ekki að bera grímu

Sylvía Hall skrifar
Þau sem hafa fengið báða skammta af bóluefni munu ekki þurfa að bera grímu utandyra.
Þau sem hafa fengið báða skammta af bóluefni munu ekki þurfa að bera grímu utandyra. Getty/John Lamparski

Samkvæmt nýjum tilmælum Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC) munu fullbólusettir ekki þurfa að bera grímu þegar tvær vikur eru liðnar frá seinni sprautu nema við mjög sérstakar aðstæður. Grímunotkun utandyra verður ekki skylda eftir bólusetningu og slakað verður á fjarlægðarmörkum.

Þetta kemur fram á vef AP fréttaveitunnar þar sem vísað er í tilkynningu CDC. Grímuskylda mun áfram vera í gildi þar sem margmenni er í sama rými eða mikil smithætta, til að mynda í almenningssamgöngum og á spítölum.

Ný tilmæli munu því hafa mikil áhrif á skóla og vinnustaði þar sem grímuskylda hefur hingað til verið í gildi, en bólusetningar vestanhafs hafa gengið afar vel og því margir sem geta kvatt grímuna á almannafæri. Forstjóri CDC segir þetta fyrsta skrefið í átt að eðlilegu lífi.

„Við höfum öll beðið eftir þessu augnabliki þar sem við getum endurheimt einhvers konar eðlilegt líf,“ segir Dr. Rochelle Walensky.

„Öll sem eru fullbólusett geta tekið þátt í samkomum innan- og utandyra – stórum sem smáum – án þess að nota grímu eða huga að fjarlægðarmörkum. Ef þú ert fullbólusettur, þá geturðu byrjað að gera hluti sem þú þurftir að hætta að gera sökum faraldursins.“

154 milljónir Bandaríkjamanna hafa fengið að minnsta kosti fyrri skammt af bóluefni, eða yfir 46 prósent þjóðarinnar. Yfir 117 milljónir teljast fullbólusettar en töluvert hefur hægt á bólusetningum undanfarnar vikur en búist er við því að fleiri verði bólusettir á næstu vikum eftir að ákveðið var að leyfa bólusetningar með bóluefni Pfizer fyrir börn á aldrinum 12 til 15 ára.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×