Fótbolti

Häcken bikar­meistari eftir öruggan sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Häcken fagna titlinum.
Leikmenn Häcken fagna titlinum. BK Häcken

Diljá Ýr Zomers sat allan tímann á varamannabekk Häcken er liðið lagði Eskilstuna 3-0 í úrslitum sænska bikarsins í knattspyrnu í dag. Leikið var á Bravida-vellinum en það er heimavöllur Häcken.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Filippa Angeldal heimastúlkum yfir eftir rúman tíu mínútna leik í síðari hálfleik. Stina Blackstenius tvöfaldaði forystuna þegar tuttugu mínútur lifðu leiks og Pauline Hammarlund gulltryggði sigurinn og þar með bikarmeistaratitilinn á 87. mínútu leiksins.

Lokatölur 3-0 og Häcken þar með bikarmeistari annað árið í röð. Tæknilega séð allavega en Häcken tók yfir starfsemi Kopparbergs/Gautaborg sem varð tvöfaldur meistari á síðustu leiktíð.

Hin 19 ára gamla Diljá Ýr sat eins og áður sagði allan tímann á varamannabekk liðsins. Hún gekk til liðs við sænska félagið frá Val fyrir þessa leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×