Innlent

Hildur stefnir ofarlega á lista Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík

Kjartan Kjartansson skrifar
Hildur Sverrisdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og aðstoðarmaður ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Hildur Sverrisdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og aðstoðarmaður ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Margrét Seema Takyar

Hildur Sverrisdóttir, 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, ætlar að bjóða sig fram í 3.-4. sæti í prófkjöri flokksins í Reykjavík í júní. Auk þess að vera varaþingmaður starfar Hildur sem aðstoðarmaður Þórdís Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunaráðherra.

Áður hefur Hildur verið borgarfulltrúi og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Þá hefur hún sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, meðal annars sem núverandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar innan hans.

Hildur er fædd árið 1978 og lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík 2008 og hlaut lögmannsréttindi árið 2009. Hún skrifaði um árabil bakþanka í Fréttablaðið og ritstýrði bókinni Fantasíur, um kynferðislegar fantasíur íslenskra kvenna, sem kom út sumarið 2012.

Hildur starfaði sem lögfræðingur og lögmaður hjá fjölmiðlafyrirtækinu 365. Með laganámi starfaði hún sem framkvæmdastjóri V-dagsins gegn kynferðisbrotum. Hún starfaði einnig sem framkvæmdastjóri Reykjavík Dance Festival og gegndi stöðu framkvæmdastjóra Jafningjafræðslunnar fyrir ÍTR og menntamálaráðuneytið. Hildur hefur einnig starfað erlendis, meðal annars á lögmannsstofunni Ambrose Appelbe í London og í flóttamannabúðum í Serbíu.

Í framboðstilkynningu segir Hildur að frelsismál eins og einstaklingsfrelsið, skoðanafrelsi, frelsi í atvinnulífinu, kynfrelsi og tjáningarfrelsi hafi verið henni hugleikin og þau verði áfram forsendur og mælikvarði alls þess sem hún geri.

Óskar hún eftir stuðningi í 3.-4. sæti listans sem skili henni þá í annað sætið á lista flokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.