Fótbolti

Cavani getur bætt met stjóra síns

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Öflugir varamenn.
Öflugir varamenn. vísir/Getty

Úrugvæski framherjinn Edinson Cavani hefur staðið sig vel þegar hann hefur komið inn af varamannabekknum hjá Man Utd í vetur.

Cavani skoraði eitt marka Man Utd í 1-3 sigri á Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í dag, eftir að hafa komið inn af varamannabekknum á 65.mínútu.

Þetta var í fimmta skiptið á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni sem Cavani kemur inn af bekknum og skorar. Enginn leikmaður hefur skorað fleiri mörk af bekknum fyrir Man Utd frá stofnun úrvalsdeildarinnar.

Cavani deilir metinu þó með tveimur mönnum. Ole Gunnar Solskjær, sem nú þjálfar Man Utd, skoraði fimm mörk sem varamaður hið goðsagnakennda tímabil 1998/1999 og Mexíkóinn Javier Hernandez, Chicharito, gerði fimm mörk eftir að hafa komið inn af bekknum tímabilið 2010/2011.

Man Utd á eftir að leika fjóra leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og spurning hvort Ole Gunnar sé tilbúinn að eiga á hættu að glata metinu sínu en hann er af mörgum talinn einn besti varamaður Man Utd frá upphafi. Norðmaðurinn þótti hafa einstakt lag á því að breyta gangi leikja eftir að hafa komið inn á sem varamaður á leikmannaferli sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×