Erlent

Efast um til­kall konungs­sonar til krúnu Súlúmanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Misuzulu Zulu prins (t.v.) var tilnefndur konungur Súlúmanna þegar erfðaskrá drottningar var lesin upp í gær. Ekki voru allir á eitt sáttir um það.
Misuzulu Zulu prins (t.v.) var tilnefndur konungur Súlúmanna þegar erfðaskrá drottningar var lesin upp í gær. Ekki voru allir á eitt sáttir um það. Vísir/AP

Til uppnáms kom þegar nýr konungur Súlúmanna í Suður-Afríku var tilnefndur í gærkvöldi. Nokkrir meðlimir konungsfjölskyldunnar efast um tilkall Misuzulu Zulu prins til krúnunnar og hrifu lífverðir hans í burtu þegar tilkynnt var opinberlega um tilkall hans í konungshöllinni.

Miklar deilur hafa skapast um hver eigi að leiða Súlúmenn eftir að Goodwill Zwelithini konungur lést í mars. Hann hafði ríkt yfir ættbálknum, sem um tólf milljónir Suðurafríkumanna tilheyra, frá 1968.

Í erfðaskrá konungs tilnefndi hann eina af sex eiginkonum sínum, Mantfombi drottningu, sem næsta handhafa konungsvaldsins. Málið vandaðist þegar Mantfombi lést sjálf aðeins um mánuði eftir að eiginmaður hennar féll frá.

Þegar erfðaskrá Mantfombi drottningar var lesin upp í gærkvöldi reyndist hún hafa tilnefnt Misuzulu prins, elsta son hennar og Zwelithini konungs, sem næsta konung, að sögn AP-fréttastofunnar. Þessu andmælti annar sonur konungs og stöðvaði tilkynninguna í KwaKhangelamankengne-höllinni. Tvær prinsessur lýstu einnig efasemdum um erfðaskrá Zwelithini konungs veitti drottningunni umboð til að velja arftaka sinn að henni genginni.

Zwelithini konungur er sagður hafa átt 28 börn með eiginkonum sínum. Mantfombi var ekki fyrsta eiginkona hans. Embætti konungs Súlúmanna er að mestu leyti táknrænt en hann hefur þó töluvert áhrif á meðal þessa stærsta þjóðarbrots í Suður-Afríku.


Tengdar fréttir

Drottningin látin fá­einum vikum eftir lát konungsins

Shiyiwe Mantfombi Dlamini Zulu, drottning Súlúmanna í Suður-Afríku, er látin, 65 ára að aldri. Hún lést einungis fáeinum vikum eftir að eiginmaður hennar, Goodwill Zwelithini konungur, lést.

Konungur Súlúmanna fallinn frá

Goodwill Zwelithini, konungur Súlúmanna í Suður-Afríki, er látinn, 72 ára að aldri. Hann lést á sjúkrahúsi þar sem hann hafði notið aðhlynningar að undanförnu vegna einkenna sykursýki.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.