Erlent

Heiftar­leg valda­bar­átta innan konungs­fjöl­skyldu Súlúmanna eftir lát drottningar

Atli Ísleifsson skrifar
Sumir innan konungsfjölskyldunnar hafa dregið í efa áreiðanleika erfðaskrár Zwelithinis konungs, eiginmanns Mantfombi Dlamini-Zulu drottningar.
Sumir innan konungsfjölskyldunnar hafa dregið í efa áreiðanleika erfðaskrár Zwelithinis konungs, eiginmanns Mantfombi Dlamini-Zulu drottningar. twitter

Heiftarleg valdabarátta stendur nú yfir innan konungsfjölskyldu Súlúmanna í Suður-Afríku eftir andlát Mantfombi Dlamini-Zulu drottningar sem lést óvænt í lok síðasta mánaðar. Drottningin, sem varð 65 ára, var jörðuð í KwaZulu-Natal héraði í austurhluta Suður-Afríku í morgun.

Drottningin lést 29. apríl síðastliðinn, fáeinum vikum eftir andlát eiginmanns hennar, Goodwill Zwelithini konungs, sem lést 12. mars, 72 ára að aldri.

BBC segir frá deilunum innan konungsfjölskyldunnar, en hún hefur hafnað orðrómum um að eitrað hafi verið fyrir drottningunni. Enn hefur ekki verið getið upp um hvað hafi dregið drottninguna til dauða.

Enn á eftir að taka ákvörðun um hver muni nú leiða þjóð Súlúmanna sem telur um ellefu milljónir manna. Þjóðhöfðingi Súlúmanna, stærsta þjóðarbrots Suður-Afríku, hefur almennt haft mikil áhrif á samfélag sinna manna í landinu.

Goodwill Zwelithini var afkomandi Cetshwayo konungs sem leiddi þjóð Súlúmanna í stríðinu við Breta árið 1879. Zwelithini settist á konungsstól árið 1968 þegar faðir hans lést.

Zwelithini konungur átti sex eiginkonur og 26 börn hið minnsta. Hann hafði hins vegar valið Mantfombi Dlamini-Zulu til að taka við skyldum konungsborins þjóðhöfðingja Súlúmanna að honum gengnum þar sem hún væri sú eina með blátt blóð í æðum. Hún var systir Mswati III, konungs Esvatíní, eða Svasílands.

Sumir innan konungsfjölskyldunnar hafa dregið í efa áreiðanleika erfðaskrár Zwelithinis konungs. Dlamini-Zulu drottning eignaðist átta börn – fimm syni og þrjár dætur – með Zwelithini konungi.


Tengdar fréttir

Drottningin látin fá­einum vikum eftir lát konungsins

Shiyiwe Mantfombi Dlamini Zulu, drottning Súlúmanna í Suður-Afríku, er látin, 65 ára að aldri. Hún lést einungis fáeinum vikum eftir að eiginmaður hennar, Goodwill Zwelithini konungur, lést.

Konungur Súlúmanna fallinn frá

Goodwill Zwelithini, konungur Súlúmanna í Suður-Afríki, er látinn, 72 ára að aldri. Hann lést á sjúkrahúsi þar sem hann hafði notið aðhlynningar að undanförnu vegna einkenna sykursýki.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.