Í viðtali í podcasti Stephen Bannon, fyrrverandi kosningastjóra Trumps, auk annars, gagnrýndi Stefanik Cheney fyrir að fara gegn Trump.
„Við erum eitt teymi og það þýðir að vinna með forsetanum,“ sagði Stefanik og átti hún þar við Trump.
Vert er að taka fram að fjölmargar rannsóknir víðsvegar um Bandaríkin, framkvæmdar af embættismönnum úr bæði Repúblikanaflokknum og Demókrataflokknum, hafa ekki sýnt fram á þess konar svindl sem Trump-liðar hafa lýst hafi átt sér stað. Þá hafa tugir dómsmála ekki farið Trump-liðum í vil.
Kevin McCarthy og Steve Scalise, sem eru æðri Cheney, stóðu fyrst við bakið á henni þegar Trump-liðar byrjuðu gagnrýni sína. Eins og fram kemur í frétt AP fréttaveitunnar hefur það þó breyst. Cheney hefur þó áfram staðið í fæturna og í gær birti hún grein á vef Washington Post þar sem hún varaði Repúblikana við persónudýrkun á Trump.
Greinin bar titilinn: Repúblikanaflokkurinn er á vendipunkti. Sagan fylgist með okkur.
Segir Trump grafa undan lýðræðinu
Í greininni gagnrýnir hún Trump harðlega fyrir að halda því fram að Joe Biden sé í raun ólögmætur forseti. Þessi viðleitni hans hafi leitt til árásarinnar á þinghúsið þann 6. janúar, þegar stuðningsmenn hans reyndu að stöðva formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna, og þrátt fyrir það haldi hann ummælum sínum áfram.
Cheney segir Trump reyna að grafa undir lýðræði Bandaríkjanna með málflutningi sínum og það sé eitthvað sem enginn forseti hafi áður gert. Þá hafi dómarar í rúmlega 60 dómsmálum hafnað málaflutningi Trumpliða.
„Repúblikanaflokkurinn er á vendipunkti og Repúblikanar þurfa að ákveða hvort við ætlum að velja sannleikann og standa við stjórnarskránna,“ skrifar Cheney.
Hún gagnrýndi McCarthy einnig í grein sinni og rifjaði upp að í kjölfar árásarinnar hafi hann sagt Trump bera ábyrgð á árásinni. Nú hafi honum hins vegar snúist hugur.
Cheney bendir á að rúmlega sextíu dómarar á ýmsum dómsstigum Bandaríkjanna hafi hafnað málaflutningi Trump-liða. Lögin hafi talað og það sé eitt æðsta gildi íhaldsmanna Bandaríkjanna að virða lög og reglur.
Stuðningur við Trump muni hafa alvarlegar afleiðingar
Þingkonan sagði einnig í grein sinni að það að styðja Trump gæti ef til vill borgað sig fyrir þingmenn fjárhagslega, sem það hefur gert, en þessi viðleitni hans og stuðningsmanna hans muni hafa slæmar og langvarandi afleiðingar. Bæði fyrir Repúblikanaflokkinn og einnig fyrir Bandaríkin.
Trump hefur lýst yfir fullum stuðningi við Stefnaki og er útlit fyrir að Cheney verði bolað úr embætti sínu á næstu dögum. Fjölmiðlar vestanhafs segja að Cheney hafi ekki rætt við aðra þingmenn og reynt að öðlast stuðning þeirra.
Þegar Repúblikanar héldu atkvæðagreiðslu um veru Cheney í embætti í febrúar hélt hún velli með miklum meirihluta, 145-61. Þá var talið að ræða sem McCarthy hélt á lokuðum fundi þar sem atkvæðagreiðslan fór fram, hafi bjargað henni.
McCarthy mun þó líklegast ekki standa við bakið á Cheney aftur.
Stefanik settist fyrst á þing árið 2015 og þótti hún ekki vera róttækur Repúblikani. Í upphafi forsetatíðar Trumps var hún til að mynda andvíg múslimabanninu svokallaða og greiddi atkvæði gegn viðleitni Trumps til að byggja múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Hún kemur þó úr kjördæmi í New York sem Trump vann bæði árið 2016 og 2020 og hefur afstaða hennar gagnvart forsetanum fyrrverandi breyst verulega. Á undanförnum árum hefur hún staðið þétt við bakið á honum og fékk stórt hlutverk í vörn hans þegar hann var ákærður fyrir embættisbrot í fyrra skiptið.