Stemmningunni í Laugardalshöll í dag hefur verið lýst sem pylsupartýi vegna þess að langflestir sem fengu sprautu í dag eru karlmenn. Ástæðan er sú að konur yngri en 55 ára fá ekki bóluefni AstraZeneca sem er bóluefnið sem notað var í dag.
„Þetta var Svandís og strákarnir,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var á meðal þeirra sem bólusett voru fyrir hádegi.
Eftir hádegi má segja að karlarnir hafi átt sviðið.

Ragnheiður Ósk var að blanda í síðustu sprauturnar nú á fimmta tímanum og á leiðinni niður í Laugardalshöll. Þar verða þau þar til sprauta númer 12800 hefur verið gefin á eftir.
„Þetta er langstærsti dagurinn,“ segir Ragnheiður Ósk en aldrei hafa fleiri verið bólusettir. Nú síðdegis var röðin inn í Laugardalshöll orðin lengri en nokkru sinni fyrr eins og sjá má á myndinni að ofan.

„Þetta hefur gengið rosalega vel, eins og smurð vél.“
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fékk sprautu í morgun og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sömuleiðis síðar í dag.
Astra komið á sinn stað. Gaman að sjá framkvæmdina í Laugardalshöll, allt til fyrirmyndar. Það birtir til.
Posted by Bjarni Benediktsson on Thursday, May 6, 2021
Á morgun verður rólegra að gera í Laugardalshöll en þá verða um þrjú þúsund manns með undirliggjandi sjúkdóma sprautaðir með bóluefni Moderna.
Mikil stemmning var í Laugardalshöllinni í dag eins og undanfarna daga en Daddi disco þeytir skífum með hressandi tónlist allan liðlangan daginn.