Fótbolti

Lehmann rekinn eftir rasísk skilaboð

Sindri Sverrisson skrifar
Jens Lehmann hefur líkt og Dennis Aogo starfað í þýsku sjónvarpi eftir að ferlinum lauk.
Jens Lehmann hefur líkt og Dennis Aogo starfað í þýsku sjónvarpi eftir að ferlinum lauk. Getty/Alex Gottschalk

Jens Lehmann, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Þýskalands í fótbolta, hefur verið rekinn úr starfi hjá Herthu Berlín eftir rasísk skilaboð sem hann sendi Dennis Aogo.

Aogo, sem er dökkur á hörund, er líkt og Lehmann fyrrverandi landsliðsmaður Þýskalands en starfar nú fyrir sjónvarpsstöðina Sky Sport í Þýskalandi.

Lehmann sendi Dennis Aogo skilaboð, sem sennilega áttu að fara annað, þar sem stóð: „Er Dennis í raun kvótasvertinginn ykkar?“ Þannig gaf Lehmann í skyn að Aogo væri aðeins í sínu starfi í sjónvarpinu vegna þess að hann væri svartur.

Aogo birti skjáskot af skilaboðunum á hringrás sinni á Instagram og skrifaði: „Vá, er þér alvara? Þessi skilaboð áttu líklega ekki að fara til mín.“

Lehmann sat í stjórn hjá Herthu sem fulltrúi fjárfestingafélagsins Tennor Holding en samningi hans við félagið var umsvifalaust rift.

Werner Gegenbauer, forseti Herthu Berlínar, sagði: „Svona skrif eru á engan hátt í samræmi við þau gildi sem Hertha BSC stendur fyrir. Við höldum okkur fjarri öllu kynþáttaníði og fögnum ákvörðun Tennor Holding.“

Lehmann kvaðst á Twitter hafa beðið Aogo afsökunar.

Lehmann lék 200 leiki fyrir Arsenal á sínum ferli áður en hann lagði hanskana á hilluna árið 2011. Hann lék einnig með Schalke, AC Milan, Dortmund og Stuttgart, og á að baki 61 landsleik.

Aogo, sem lék 12 landsleiki, lagði skóna á hilluna í fyrra og hafði þá spilað 340 leiki í efstu tveimur deildum Þýskalands. Hann lék lengst með Hamburg, árin 2008-2013.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.