Innlent

Leggur til aldurstakmark á snjallsímaeign

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Hjálmar Bogi Hafliðason.
Hjálmar Bogi Hafliðason. vísir/Vilhelm

Hjálmar Bogi Hafliðason, þingmaður Framsóknarflokksins, ræddi um snjallsímanotkun barna á Alþingi í dag og spurði hvort takmarka ætti snjallsímaeign barna við fimmtán ára aldur.

Hjálmar Bogi tók sæti á Alþingi í gær sem varamaður Þórunnar Egilsdóttur. Í umræðum um störf þingsins í dag benti Hjálmar á að athafnafrelsi barna og ungmenna sé nú þegar takmarkað með ýmsum hætti í lögum.  „Átján ára verður barnið lögráða og fjárráða einstaklingur, átján ára fær einstaklingur kosningarétt og má ganga í hjónaband og kaupa tóbak. Tuttugu ára má einstaklingur kaupa áfengi og eiga og nota skotvopn,“ sagði Hjálmar og taldi upp ýmis önnur dæmi.

„Við sem teljumst fullorðin reynum hafa vit fyrir æsku samfélagsins hverju sinni,“ sagði Hjálmar og bætti við að veröldin breytist hratt í neyslusamfélagi samtímans. 

„Er kominn tími til að skilgreina í lögum hvenær barn má eignast snjallsíma? Í stjórnarskrá Íslands stendur að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“

Þá spurði hann hvers vegna snjallsímanotkun barna væri samþykkt.

„Hvers vegna samþykkjum við að til dæmis tólf ára barn eignist síma með aðgangi að öllu því internet hlaðborði og samfélagsmiðlum sem þeir hafa upp á að bjóða? Hvað þá tíu ára barn eða níu ára,“ sagði Hjálmar.

„Ættum við hér á Alþingi kannski að setja lög; að einstaklingur megi eignast snjallsíma með interneti og samskiptaforitum fimmtán ára? Verndun börnin okkar og ungmenni og aðstoðum foreldra við að sinna sínu ábyrgðarmikla hlutverki að ala upp barn.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.