Innlent

Ræddu tvíhliða samstarf og fyrirhugaða Íslandsheimsókn

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna áttu símafund í dag.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna áttu símafund í dag. EPA/Vísir/Vilhelm

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræddu tvíhliða samstarf ríkjanna og fyrirhugaða heimsókn Blinken til Íslands á símafundi í dag. Blinken mun leiða sendinefnd Bandaríkjanna sem tekur þátt á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins þann 20. maí næstkomandi.

Í ár eru áttatíu ár liðin frá því að Ísland og Bandaríkin tóku upp formlegt stjórnmálasamband og sjötíu ár frá undirritun varnarsamnings við Bandaríkin en líkt og áður segir voru tvíhliða samskipti ríkjanna einnig til umræðu á fundinum í dag að því er segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Þá hafa samskipti ríkjanna um efnahagsmál farið vaxandi á undanförnum árum en öryggis- og varnarsamstarf, mannréttindamál og loftslagsmál báru einnig á góma á fundi ráðherranna.

„Fyrirhuguð heimsókn Tony Blinken hingað til lands sýnir ekki aðeins áhuga nýrrar ríkisstjórnar í Bandaríkjunum á Norðurskautsráðinu heldur einnig vilja hennar til að halda áfram þeirri góðu samvinnu sem Ísland og Bandaríkin hafa átt um árabil. Slíkar heimsóknir veita mikilvægt tækifæri til að efla tengsl ríkjanna enn frekar, þeim báðum til hagsbóta,“ er haft eftir Guðlaugi Þór í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×