City í góðri stöðu eftir endur­komu í París

Anton Ingi Leifsson skrifar
City-menn fagna sigurmarki Mahrez.
City-menn fagna sigurmarki Mahrez. Tom Flathers/Getty

Manchester City er í góðri stöðu eftir fyrri leikinn gegn PSG í undanúrslitum Meistaradeildarinnar en ensku meistararnir unnu 2-1 sigur á PSG í París í kvöld.

Það voru heimamenn sem byrjuðu betur og þeir komust yfir á fimmtándu mínútu er Marquinhos skallaði hornspyrnu Angel Di Maria í netið.

Þeir voru svo nálægt því að bæta við öðru marki, aftur eftir hornspyrnu, er Leandro Paredes skallaði boltann í átt að marki City en nú fór boltinn framhjá.

PSG hafði öll tök á leiknum í fyrri hálfleik og hreyfði boltann vel. Þeir héldu boltanum vel innan liðsins án þess að skapa sér mörg opin marktækifæri.

Phil Foden fékk besta færi City í fyrri hálfleik en skot hans skömmu fyrir hálfleik fór beint á Keylor Navos í marki PSG og heimamenn því 1-0 yfir í hálfleik.

Það var allt annað að sjá City í síðari hálfleik og þeir voru byrjaðir að taka yfir leikinn er þeir jöfnuðu. Fyrirgjöf Kevin De Bruyne á 64. mínútu rataði framhjá varnarmönnum og markverði PSG og í netið.

Sjö mínútum síðar voru City komnir yfir. Eftir brot á Phil Foden rétt fyrir utan vítateig, skaut Riyad Mahrez boltanum í gegnum ömurlegan varnarvegg PSG og í netið.

Ekki skánaði ástandið fyrir PSG á 77. mínútu er Idissa Gana Gueye fékk beint rautt spjald eftir glórulausa tæklingu á Ilkay Gundogan.

Hvorugt liðið fékk góð færi eftir það en ljóst er að City er í góðri stöðu fyrir síðari leikinn, þó að aldrei megi vanmeta ógnarsterkt lið PSG.

Síðari leikurinn fer fram í Englandi á þriðjudag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira