Erlent

Bólusettir geti verið grímulausir utandyra

Kjartan Kjartansson skrifar
Slakað er á tilmælum um grímunotkun í nýjustu leiðbeiningum bandarísku sóttvarnastofnunarinnar CDC.
Slakað er á tilmælum um grímunotkun í nýjustu leiðbeiningum bandarísku sóttvarnastofnunarinnar CDC. AP/Matt Rourke

Þeir sem hafa þegar verið fullbólusettir gegn kórónuveirunni þurfa ekki að nota grímur utandyra nema þeir séu í stórum hópi ókunnungs fólks samkvæmt nýjum leiðbeiningum Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC). Óbólusettir geta líka sleppt grímum utandyra við ákveðnar aðstæður.

Fram að þessu hefur CDC mælt með því að Bandaríkjamenn gangi með grímur utandyra ef þeir eru í návígi við annað fólk. Nú hefur hins vegar meira en helmingur fullorðinna landsmanna fengið að minnsta kosti fyrri skammt af bóluefni, um 140 milljónir manna. Meira en þriðjungur er fullbólusettur.

Nú segir stofnunin að fólk þurfi ekki að nota grímur utandyra þegar það fer í göngutúr, hjólar eða hleypur eitt eða með öðrum sem deila með því heimili, hvort sem það er bólusett eða ekki. Þeir sem eru fullbólusettir geta líka komið saman utandyra grímulausir, að því er kemur fram í frétt AP-fréttastofunnar.

Þeir sem eru ekki bólusettir ættu áfram að nota grímur þar sem fólk kemur saman utandyra og þegar þeir snæða á veitingastöðum utandyra með fólki sem býr ekki með þeim. Allir, bólusettir sem óbólusettir, ættu áfram að nota grímur í mannfjölda utandyra eins og á tónleikum eða íþróttaviðburðum.

Áfram er mælt með því að fólk noti grímur innandyra, þar á meðal á hárgreiðslustofum, veitingastöðum, verslunarmiðstöðvum, líkamsræktarstöðvum, söfnum og kvikmyndahúsum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×