Fótbolti

Zlatan gæti verið í vandræðum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Zlatan gengur af velli eftir að hafa fengið reisupassann í leiknum gegn Parma á dögunum.
Zlatan gengur af velli eftir að hafa fengið reisupassann í leiknum gegn Parma á dögunum. Jonathan Moscrop/Getty Images

Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hefur hafið rannsókn á eigum knattspyrnumannsins Zlatan Ibrahimovich en hann ku eiga hlut í veðmálafyrirtæki.

Knattspyrnumenn mega hvorki njóta fjárhagslegs ávinnings af veðmálafyrirtækjum né eiga í þeim hlut og nú gæti Zlatan verið í vandræðum.

UEFA hefur hafið rannsókn á framherjanum en hann er sagður eiga hlut í veðmálafyrirtækinu Bethard.

UEFA staðfesti þetta á heimasíðu sinni en sænska dagblaðið Sportbladet segir að Zlatan gæti átt yfir höfði sér bann í allt að tvö ár verði hann fundinn sekur.

Einnig gæti hann fengið sekt sem hljóðar upp á eina milljón sænskra króna, sem jafngildir tæplega fimmtán milljónum íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×