Fótbolti

Bild: Nagelsmann tekur við Bayern í sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Núverandi og verðandi knattspyrnustjóri Bayern München.
Núverandi og verðandi knattspyrnustjóri Bayern München. getty/Alex Grimm

Bayern München og Julian Nagelsmann hafa náð samkomulagi um að hann taki við þýsku meisturunum í sumar.

Þýska blaðið Bild greinir frá þessu í dag. Hansi Flick hefur óskað eftir því að hætta sem knattspyrnustjóri Bayern í sumar en líklegt þykir að hann taki við þýska landsliðinu af Joachim Löw sem hættir eftir EM.

Talið er að Bayern þurfi að borga RB Leipzig allt að þrjátíu milljónir evra fyrir að losa Nagelsmann undan samningi við félagið. Nagelsmann er samningsbundinn Leipzig til 2023.

Nagelsmann, sem er aðeins 33 ára, þykir einn efnilegasti stjórinn í bransanum. Hann gerði góða hluti með Hoffenheim áður en hann tók við Leipzig sumarið 2019. Undir hans stjórn komst liðið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í fyrra.

Bayern hefur unnið allt sem hægt er að vinna síðan Flick tók við liðinu í nóvember 2019. Bayern er með sjö stiga forskot á Leipzig á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar þegar þremur umferðum er ólokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×