Fótbolti

Tvær borgir fá ekki að halda EM

Sindri Sverrisson skrifar
Ekki verður spilað á Aviva leikvanginum í Dublin á EM.
Ekki verður spilað á Aviva leikvanginum í Dublin á EM. Getty/Eóin Noonan

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur nú ákveðið hvar leikirnir sem fyrirhugað var að færu fram í Dublin og Bilbao, á EM karla í fótbolta í sumar, verða spilaðir.

UEFA lagði áherslu á að hægt yrði að spila fyrir framan áhorfendur á leikjunum á EM, þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn. Afar ólíklegt var að það gæti orðið í Dublin á Írlandi og í Bilbao á Spáni.

Leikirnir fjórir sem áttu að fara fram í Bilbao, þrír leikir í E-riðli og einn leikur í 16-liða úrslitum, verða því þess í stað spilaðir í Sevilla. Stefnt er að því að hægt verði að fylla í 30% þeirra sæta sem eru á Estadio La Cartuja leikvanginum. 

Leikirnir þrír í E-riðli sem áttu að vera í Dublin verða svo færðir alla leið til Pétursborgar í Rússlandi, þar sem einnig verður spilað í B-riðli. Þá verður einn leikur í 16-liða úrslitum, sem spila átti í Dublin, þess í stað á Wembley í London.

Svíþjóð, Slóvakía, Pólland og Spánn leika í E-riðlinum.

Yfirvöld í München hafa svo staðfest að að lágmarki 14.500 áhorfendum verði leyft að sjá leikina í F-riðli sem þar fara fram. Þetta hefði haft áhrif á Íslendinga ef Ísland hefði unnið Ungverjaland í nóvember og komist á EM, því síðasti leikur Íslands í riðlakeppninni hefði verið gegn Þýskalandi í München.

EM 2020, sem reyndar fer fram 2021, verður því spilað í London, München, Róm, Bakú, Pétursborg, Búdapest, Búkarest, Amsterdam, Sevilla, Glasgow og Kaupmannahöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×