Fótbolti

Lyon ætlar að hjálpa Söru Björk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir hitar hér upp fyrir leik með Olympique Lyon í Meistaradeildinni í fyrra.
Sara Björk Gunnarsdóttir hitar hér upp fyrir leik með Olympique Lyon í Meistaradeildinni í fyrra. Getty/Alex Caparros

Lyon ætlar að geta allt í sínu valdi til að auðvelda íslenska landsliðsfyrirliðanum Söru Björk Gunnarsdóttur að komast aftur inn á fótboltavöllinn eftir að hún eignast sitt fyrsta barn í lok ársins.

Franska félagið Olympique Lyon óskaði Söru Björk Gunnarsdóttur til hamingju með stóru fréttirnar hennar á síðasta vetrardegi en þar tilkynnti íslenski landsliðsfyrirliðinn heiminum að hún ætti von á barni í nóvember.

Lyon segir frá óléttu Söru Bjarkar á miðlum sínum og þar er líka tekið fram að samningur Söru sé til ársins 2022.

Í tilkynningu Lyon kemur fram að Sara Björk sé nú á leiðinni til Íslands þar sem að hún muni eyða næstu mánuðum með kærastanum Árna Vilhjálmssyni og fjölskyldu sinni.

Lyon ætlar jafnframt að gera allt í sínu valdi til að búa til sem bestu aðstæður fyrir Söru Björk að koma aftur til baka inn á völlinn eftir barnsburðarfríið.

„Olympique Lyon vill óska leikmanni sínum Söru Björk Gunnarsdóttur og manni hennar til hamingju með ánægjulegan endi á árinu 2021,“ segir í upphafi tilkynningarinnar frá Olympique Lyon.

„Eftir að Sara hafði greint styrktaraðilum sínum og félaginu frá fréttunum þá sagði hún frá fréttunum á samfélagsmiðlum sínum á miðvikudagskvöldið. Allt félagið, starfsmennirnir og liðsfélagar hennar fagna þessum fréttum og óska miðjumanninum alls hins besta en hún er með samning við OL til júní 2022,“ segir á Instagram síðu Lyon.

„Til að klára meðgöngu sína þá hefur Sara yfirgefið félagið til að hitta fyrir sambýlismann sinn og ættingja á Íslandi. Hún verður því ekki til taks næstu mánuðina. Olympique Lyon óskar Söru enn á ný til hamingju og við munum geta allt sem við getum til að hjálpa henni við að skipuleggja endurkomu sína við bestu aðstæður í boði,“ segir í tilkynningu Lyon eins og sjá má hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.