Innlent

Fluttir á bráðamóttöku eftir tvö vinnuslys

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mennirnir voru báðir fluttir á bráðamóttöku.
Mennirnir voru báðir fluttir á bráðamóttöku. Vísir/vilhelm

Tveir voru fluttir slasaðir á bráðamóttöku eftir tvö vinnuslys á höfuðborgarsvæðinu í dag. Þá var lögregla einnig kölluð út vegna umferðaróhappa.

Lögreglu var á tíunda tímanum í morgun tilkynnt um vinnuslys í umdæmi lögreglustöðvar 1, þar sem iðnaðarmaður fékk höfuðhögg. Maðurinn var fluttur á bráðamóttöku en ekki er greint frekar frá líðan hans í tilkynningu lögreglu.

Um klukkutíma áður var tilkynnt um vinnuslys í fyrirtæki í Garðabæ. Þar hafði lyftara verið ekið á starfsmann. Hann var fluttur á bráðamóttöku en ekki er heldur að fá frekari upplýsingar um líðan hans í tilkynningu.

Þá var lögregla kölluð út skömmu eftir hádegi vegna reiðhjólaslyss í Laugardalnum. Sá sem slasaðist var fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku. Lögregla sinnti einnig umferðaróhappi í umdæmi lögreglustöðvar 3 í Kópavogi, þar sem bíl hafði verið ekið á vegfaranda á rafmagnshlaupahjóli. Ekki urðu slys á fólki en tjón varð á hjólinu og bílnum.

Þá stöðvaði lögregla ökumann á tíunda tímanum í morgun sem reyndist sviptur ökuréttindum. Þetta reyndist í fjórða sinn sem ökumaðurinn er kærður fyrir að aka sviptur ökuréttindum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×