Innlent

Grunaður um brot og ósáttur að þurfa að vera í sóttvarnahúsi

Birgir Olgeirsson skrifar
Foss hótel við Þórunnartún hefur verið nýtt sem sóttvarnahús eða -hótel undanfarnar vikur.
Foss hótel við Þórunnartún hefur verið nýtt sem sóttvarnahús eða -hótel undanfarnar vikur. Vísir/EgillA

Sóttvarnalæknir gerði kröfu um að karlmaður sem sýktist af Covid-19, yrði gert að dvelja í einangrun í sóttvarnahúsi.

Karlmaðurinn, sem talinn er hafa brotið gegn reglum um sóttkví, kærði kröfuna til héraðsdóms. Hann hefur verið í sóttvarnahúsinu frá 12. apríl. Talið er að fjölmörg smit á höfuðborgarsvæðinu megi tengja við brot mannsins á sóttkví. Mbl.is greindi fyrst frá.

Guðmundur Pétur Guðmundsson lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu staðfestir að héraðsdómur hafi fallist á kröfu sóttvarnalæknis. Því hafi maðurinn þurft að fara í sóttvarnahús. Guðmundur Pétur hafði ekki upplýsingar um hvort karlmaðurinn hefði kært úrskurð héraðsdóms til Landsréttar.

Karlmaðurinn er pólskur og búsettur hér á landi. Hann er grunaður um að hafa farið gegn reglum um sóttkví og einangrun en málið rataði fyrst á borð lögreglu 8. apríl. Maðurinn hafði verið á ferðalagi ytra en ekki er vitað hvenær hann kom til landsins.

Talið er að maðurinn hafi tengingar við þá hópsýkingu sem kom upp á leikskólanum Jörfa en mörg hundruð manns hafa þurft að fara í sóttkví vegna hennar. Smit hafa komið upp í Álftamýrarskóla og Sæmundarskóla sem rakin eru til Jörfa.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hefur sagt að smitið á Jörfa megi rekja til sóttkvíarbrots á landamærunum. Guðmundur Pétur segir að ekki hafi enn tekist að yfirheyra manninn vegna veikinda hans og því ekki endanleg mynd komin á atburðarásina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×