Erlent

Elísabet þakkar árnaðaróskir vegna afmælis síns og samhug vegna fráfalls Filippusar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Elísabet II er 95 ára í dag.
Elísabet II er 95 ára í dag. epa/Andy Rain

Starfsmenn Buckingham-hallar hafa birt skilaboð frá Elísabetu drottningu á Twitter, þar sem hún þakkar stuðning og góðvild í kjölfar andláts eiginmans síns, Filippusar prins. Elísabet er 95 ára í dag.

„Í tilefni 95 ára afmælis míns í dag hafa mér borist margar árnaðaróskir sem ég kann mjög vel að meta.

Á sama tíma og við fjölskyldan syrgjum hefur það hughreyst okkur að sjá og heyra allar þær kveðjur sem borist hafa vegna eiginmanns míns frá Bretlandi, samveldinu og heiminum öllum,“ segir drottningin.

„Fjölskyldan mín og ég viljum þakka ykkur fyrir sýndan stuðning og góðvild síðustu daga. Við erum djúpt snortin og minnug þess að Filippus hafði djúpstæð áhrif á fjölda fólks á lífstíð sinni.“

Elísabet mun halda upp á afmælið með nánustu fjölskyldu en árleg afmælismyndataka mun líklega ekki eiga sér stað vegna fráfalls Filippusar. Þá verður kirkjuklukkunum í Westminster Abbey ekki hringt eins og tíðkast hefur.

Vangaveltur voru uppi um að Harry myndi ef til vill fresta heimför eftir útför afa síns til að verja afmælisdeginum með ömmu sinni en samkvæmt erlendum miðlum hefur hann snúið aftur til Los Angeles.

Þar bíður hans eiginkonan Meghan Markle, sem er komin langt á leið með annað barn þeirra hjóna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×