Fótbolti

Forseti ofurdeildarinnar leggur til að stytta fótboltaleiki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Florentino Pérez er einn helsti hvatamaðurinn á bak við stofnun ofurdeildarinnar.
Florentino Pérez er einn helsti hvatamaðurinn á bak við stofnun ofurdeildarinnar. getty/Samuel de Roman

Florentino Pérez, forseti Real Madrid og ofurdeildarinnar, segir að það gæti þurft að stytta leiki til að auka áhuga ungs fólks á fótbolta.

Pérez ræddi ítarlega um ástæðurnar fyrir stofnun ofurdeildarinnar í spænska sjónvarpsþættinum El Chiringuito de Jugones í gærkvöldi.

Hann vonast til að ofurdeildin auki áhuga ungmenna á fótbolta og ekki sé vanþörf á.

„Fjörutíu prósent ungs fólks á aldrinum 16-24 ára hefur ekki áhuga á fótbolta og við þurfum að greina ástæðurnar fyrir því,“ sagði Pérez.

„Það segir að leikirnir séu of langir. Ef ungt fólk horfir ekki á heilan leik er það vegna þess að hann er ekki nógu áhugaverður eða við þurfum að stytta hann.“

Ekki er langt síðan Andrea Agnelli, forseti Juventus og annar af varaforsetum ofurdeildarinnar, stakk upp á því að selja áskrift að síðasta stundarfjórðungi leikja til að auka áhuga ungmenna á fótbolta.

„Við höfum hugsað um áskrift fyrir síðasta korter ákveðinna leikja. Krakkar í dag og viðskiptavinir framtíðarinnar halda ekki athygli eins krakkar gerðu þegar ég var yngri,“ sagði Agnelli eftir ársfund ECA, samtaka félagsliða í Evrópu sem hann, og aðrir forsprakkar liðanna í ofurdeildinni, hafa sagt sig úr.

„Ef við tökum til dæmis golf, ef það er áhugavert yfirhöfuð eru það bara síðustu sex holurnar á lokahringnum. Þú horfir ekki á allt mótið nema þú sért forfallinn aðdáandi,“ sagði Agnelli ennfremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×