Fótbolti

Rauða spjaldið: Vilhjálmur og Boris beita sér gegn Ofurdeildinni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vilhjálmur og Boris: Á Ofurdeildin við ofurefli að etja?
Vilhjálmur og Boris: Á Ofurdeildin við ofurefli að etja? epa

Vilhjálmur Bretaprins er meðal þeirra sem hafa tjáð sig um nýja Ofurdeild í knattspyrnu en hann sagði á Twitter að nú riði á að standa vörð um knattspyrnusamfélagið og þau gildi sem það stæði fyrir; samkeppni og sanngirni.

Fyrirætlanir um stofnun Ofurdeildarinnar hafa klofið knattspyrnusamfélagið og sitt sýnist hverjum. Afstaða Vilhjálms kann þó að vigta meira en annarra en hann mun ekki bara erfa krúnuna heldur er hann forseti breska knattspyrnusambandsins (FA).

Financial Times greinir frá því að stofnlið deildarinnar muni hagnast um 200 til 300 milljónir evra við stofnunina en í leiðara kallar blaðið átökin „baráttu um sál evrópskrar knattspyrnu“.

Menningarmálaráðherrann Oliver Dowden segir stjórnvöld munu gera allt sem þau geta til að koma í veg fyrir að ensk lið taki þátt í deildinni og þá hefur menntamálráðherrann Gavin Williamsson sagt að til greina komi að grípa til lagasetningar til að vernda hagsmuni enska boltans.

Boris Johnson forsætisráðherra mun funda með FA, fulltrúum úrvalsdeildarinnar og aðáendum í dag til að ræða stöðu mála. Hann hefur sjálfur harmað fregnir af stofnun Ofurdeildarinnar og segir fegurð leiksins snúast um þá von sem býr í brjósti stuðningsmanna um að einn dag muni liðið þeirra ná á toppinn.

„Þetta er leikurinn ykkar og þið getið verið viss um að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að gefa þessum fáránlegu fyrirætlunum rauða spjaldið,“ sagði Johnson í Sun.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.