Innlent

Leggja fram frumvarp sem heimilar skyldudvöl í sóttvarnahúsi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Formaður Samfylkingarinnar segist vilja taka ómakið af ríkisstjórninni.
Formaður Samfylkingarinnar segist vilja taka ómakið af ríkisstjórninni. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Í ljósi þess að tvær hópsýkingar geisa nú innanlands hefur þingflokkur Samfylkingarinnar ákveðið að leggja fram, við fyrsta tækifæri, frumvarp um breytingar á sóttvarnalögum sem heimilar ráðherra að skylda komufarþega til dvalar í sóttvarnarhúsi.

Frumvarpið er tilbúið og í yfirferð á þingskrifstofu Alþingis. Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir málið ekki þola neina bið.

„Við teljum okkur ekki geta beðið. Fyrst ríkisstjórnin er of ósamstíga til að taka ákvörðun um þetta þá erum við tilbúin að taka ómakið af henni og erum tilbúin með frumvarp að sóttvarnalögum sem heimilar ráðherra að skylda fólk sem hingað kemur í sóttvarnahús. Þetta er að tillögu sóttvarnalæknis og við teljum brýnt að gera þetta núna.“

Frelsi landsmanna og öryggishagsmunir í húfi

Hvað heldur þú að standi í vegi fyrir því að ríkisstjórnin hafi ekki þegar skotið styrkari lagastoðum undir reglugerðina?

„Ég held að það standi á ríkisstjórninni að leggja fram nauðsynlega lagabreytingu vegna þess að hún er of ósamstíga. Við höfum alveg séð hvernig einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað um þetta. Þeir eru ekkert tilbúnir að styðja þetta þannig að það þarf þá bara að leysa þetta öðruvísi. Öryggishagsmunir eru í húfi sem og frelsi fólksins í landinu“

Aðspurður sagðist Logi telja að þingmenn komi til með að styðja frumvarpið.

„Það held ég að hljóti að vera miðað við að þeirra ráðherra lagði fram þessa reglugerð sem við erum að reyna að styðja við.“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráherra, og Logi ræddu um málið undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi í dag. Logi spurði Katrínu út í fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í ljósi hópsmitanna.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Vilja fyrst fá að meta hvort hertar reglur skili árangri

Katrín svaraði því til að ef ríkisstjórnin mæti það sem svo að þær hertu reglur sem heilbrigðisráðherra greip til – eftir að fyrri reglugerð var metin ólögmæt – dygðu ekki til þá væri hún reiðubúin að skoða breytingar á lögunum.

Hún vildi líka halda því til haga að þau smit sem rekja má hópsýkingarnar til megi rekja til einstaklinga sem ekki virtu reglur um sóttkví sem komu til landsins fyrir gildistöku reglugerðar um sóttkvíarhótel og þar af leiðandi líka áður en reglugerðin var metin ólögmæt.

„Í raun og veru snúast þessi smit ekki um fyrirkomulagið sjálft heldur um að fólk sé ekki að fylgja fyrirkomulaginu. Og það er mjög miður og það er mjög eðlilegt að við öll, sem hér erum á Alþingi, skynjum núna gremju hjá þeim sem eru að leitast við að fylgja reglunum og sjá núna afleiðingar af slíkum brotum.“

Ef tíminn leiði ljós að hinar hertu aðgerðir skili ekki tilætluðum árangri sé ríkisstjórnin tilbúin að skoða breytingar á lögunum þannig að unnt sé að tryggja að svona atvik endurtaki sig ekki.


Tengdar fréttir

Hyggjast ráðast í víðtækar skimanir

Ráðast á í víðtækar skimanir í tengslum við þau hópsmit sem upp eru komin í samfélaginu og sömuleiðis handahófskenndar skimanir til að freista þess að meta útbreiðsluna almennt.

27 greindust innan­lands

27 greindust með kórónuveiruna innan­lands í gær. 25 þeirra sem greindust voru í sóttkví, en tveir greindust utan sóttkvíar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.