Fótbolti

Liðin á bak­við ofur­deildina skuldug upp fyrir haus

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tottenham trónir á toppi skuldalista stofnmeðlima ofurdeildar Evrópu. Þær skuldir eru að miklu leyti nýjum velli félagsins að kenna.
Tottenham trónir á toppi skuldalista stofnmeðlima ofurdeildar Evrópu. Þær skuldir eru að miklu leyti nýjum velli félagsins að kenna. Getty Images/Nick Potts

Í gærkvöld birtu tólf knattspyrnufélög drög að stofnun svokallaðrar ofurdeildar Evrópu. Þótt ástæðan sé sögð vera jákvæð fyrir framþróun fótboltans í heild sinni er ljóst að liðin munu hagnast gríðarlega.

Vísir fór yfir málin í gær en snemma dags fóru orðrómar af stað um að nokkur félög Evrópu ætluðu sér að opinbera stofnun ofurdeildar Evrópu síðar sama dag. Aðeins degi áður en knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, ætlaði að tilkynna breytingar á Meistaradeild Evrópu.

Félögin tólf eru eftirfarandi: Chelsea, Tottenham Hotspur, Liverpool, Arsenal Manchester City og United, [England], Barcelona, Atlético og Real Madrid [Spánn], Juventus, AC og Inter Milan [Ítalía].

Ofureildin átti að koma í stað Meistaradeildar Evrópu en þess má til gamans geta að aðeins fjögur af félögunum tólf voru í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í ár.

UEFA og landssambönd Englands, Ítalíu og Spánar gáfu frá sér harðorða yfirlýsingu í gær þar sem þau fordæmdu stofnun svokallaðrar ofurdeildar. Gáfu samböndin út að liðin myndu sæta refsingum og mögulega vera sparkað úr deildarkeppnum hvers lands fyrir sig.

Twitter-aðgangurinn Swiss Ramble hefur nú birt hinar ýmsu upplýsingar um fjármál liðanna tólf sem eru á bakvið „ofurdeildina.“ Eru tölurnar byggðar á opinberum reikningum félaganna.

Samkvæmt ársreikningum félaganna þá töpuðu félögin tólf alls 1,2 milljarði punda á tímabilinu 2019/2020. Um er að ræða tap félaganna áður en Covid-19 skall á. Inn í tölurnar vantar hins vegar leikmannasölur svo mögulega eru skuldirnir örlítið lægri.

Samkvæmt skilgreiningu UEFA á því hvað flokkast sem skuld - ásamt skuldum vegna leikmannakaupa - þá skulda félögin tólf alls 5,6 milljarða punda. Sú tala gæti verið hærri þar sem Liverpool hefur ekki birt reikninga sína fyrir tímabilið 2019/2020. 

Ef allar skuldir félaganna eru teknar með í myndina, til að mynda það sem félögin skulda starfsfólki, skattayfirvöldum og kröfuhöfum þá er upphæðin alls 7,4 milljarðar punda.

Ef skuldir og inneignir félaganna eru teknar saman þá skuldar Tottenham mest eða 719 milljónir punda. Þar á eftir kemur Manchester United [565 milljónir], Barcelona [415 milljónir], Juventus [358 milljónir] og Inter Milan [346 milljónir].

Varðandi skuldir Chelsea þá er upphæðin sem félagin skuldar eiganda sínum, Roman Abramovich, ekki talin með. Talið er að Chelsea skuldi Roman 1,4 milljarða punda eins og staðan er í dag.

Hér að neðan má sjá hvernig skuldir félaganna skiptast upp.

Talið er að stofnfélög félög ofurdeildarinnar fái allt að 300-350 milljónir punda í sinn vasa á fyrsta tímabili. Það er því til mikils að vinna fyrir félög sem eru bókstaflega skuldug upp fyrir haus.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.