Innlent

Segir aumingja­skap að beina þvingunar­að­gerðum gegn al­mennum borgara

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Helgi Steinar Gunnlaugsson, alþjóðastjórnmálafræðingur.
Helgi Steinar Gunnlaugsson, alþjóðastjórnmálafræðingur.

Alþjóðastjórnmálafræðingur segir það aumingjaskap af hálfu kínverskra stjórnvalda að beina þvingunaraðgerðum gegn almennum borgara hér á landi. Um sé að ræða ágreining sem eigi að ræða á vettvangi stjórnmála.

Líkt og fjallað var um í gær var íslenskur lögmaður beittur refsiaðgerðum og settur á svokallaðan svartan lista í Kína. Refsiaðgerðirnar byggja á þeirri ákvörðun yfirvalda hér á landi að taka þátt í refsiaðgerðum gegn Kína vegna mannréttindabrota á Úígúrum þar í landi.

Alþjóðastjórnmálafræðingur segir það vekja sérstakan óhug að aðgerðir Kínverja beinist gegn almennum borgara.

„Þetta er kannski svolítið hart til orða tekið en fyrir þjóð sem er að reyna að selja sig sem þetta stóra, mikla og sterka heimsveldi þá er svona ekkert annað en aumingjaskapur. Ef að gremja kínverskra stjórnvalda beinist að Íslenskum stjórnvöldum fyrir það að taka þátt í þvingunaraðgerðum þá eiga það að vera íslensk stjórnvöld, sem geta varið sig með pólítískum hætti, þau sem taka á sig skellinn ekki einhver lögfræðingur úti í bæ sem gerði í rauninni ekkert annað en að skrifa nokkra pistla,“ sagði Helgi Steinar Gunnlaugsson, alþjóðastjórnmálafræðingur.

 Í harðorðri yfirlýsingu sem fulltrúi sendiráðsins í Kína sendi frá sér síðdegis í gær kemur fram að ástæður þess að Ísland fylgi einhliða refsiaðgerðum ESB gagnvart Kínverskum embættismönnum séu byggðar á lygum og misvísandi upplýsingum undir yfirskyni svokallaðra mannréttindamála í Xinjiang héraðinu eins og það er orðað.

„Orðalagið í þessari yfirlýsingu fannst mér vera svolítið ódiplómatískt og tónninn fannst mér svolítið „passive aggressive“ fyrir ríkisstjórn.“

Meginefnið í yfirlýsingunni, að aðrar þjóðir eigi ekki að skipta sér af innanríkismálum Kína, sé þó gömul saga og ný.

Sendiherra Kína á Íslandi vildi ekki veita viðtal vegna málsins þegar fréttastofa leitaðist eftir því.


Tengdar fréttir

Krefjast þess að Ísland hætti afskiptum af innanríkismálum Kína

Viðskiptaþvinganir Kína gegn íslenskum lögmanni byggja á ákvörðun yfirvalda hér á landi að taka þátt í refsiaðgerðum gegn Kína vegna mannréttindabrota á Úígúrum þar í landi. Í stóryrtri yfirlýsingu frá sendiráði Kína hér á landi segir að ákvörðun stjórnvalda byggi á engu nema lygum og upplýsingafölsun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.