Innlent

Segir að­gerðir Kín­verja í sam­ræmi við skilnings­leysi þeirra á réttar­ríkinu

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Sigríður Á. Andersen er formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Sigríður Á. Andersen er formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Vilhelm Gunnarsson

Formaður utanríkismálanefndar Alþingis segir aðgerðir Kínverja í samræmi við skilningsleysi þeirra á réttarríkinu og öllum þeim grundvallarréttinum sem undir það heyra. Nefndin mun ræða mál Kínverja á næstunni.

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis segir aðgerðir Kínverja sæta furðu þó þær komi ekki á óvart. Íslenskur lögmaður var í fyrradag beittur refsiaðgerðum og settur á svokallaðan svartan lista í Kína.

Þekkt aðferðarfræði

„Hún kemur í sjálfu sér ekkert á óvart en sætir samt auðvitað furðu. Þessar aðgerðir Kínverja eru þekktar, þessi aðferðarfræði hefur verið þekkt um árabil að taka einstaklinga, stofnanir eða lögaðila fyrir og beita þeim svona refsiaðgerðum í kjölfar athugasemda sem að lýðræðisríki hafa gert við mannréttindamál í Kína,“ sagði Sigríður.

Hún segir mál íslenska lögmannsins þó sæta sérstakri furðu.

„Ég þekki ekki til þess að einstaklingur sem ekki er tengdur stjórnmálum eða stjórnkerfinu hafi verið tekið fyrir með þessum hætti.“

Sigríður segir yfirlýsingu Kínverja í samræmi við viðbrögð þeirra gegn löndum sem mótmæla framferði Kínverskra stjórnvalda í Xinjiang héraði.

„Sambærilegar yfirlýsingar hafa ábyggilega verið sendar gagnvart þingmönnum á Evrópska þinginu og frjálsum félagasamtökum í Evrópu þannig að ég held að þetta sé bara í þeim stíl.“

Utanríkismálanefnd Alþingis mun fá utanríkisráðherra og ráðuneytisfólk á sinn fund til að fara yfir stöðuna á næstunni og mun nefndin ræða þessi mál Kínverja í víðu samhengi.

„Sem eru auðvitað bara kannski í samræmi við þetta fullkomna skilningsleysi Kínverja á réttarríkinu almennt og öllum þeim grundvallarréttindum sem undir réttarríkið falla svo sem eins og málfrelsi og almenn mannréttindi,“ sagði Sigríður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×