Innlent

Minnisblöðin margumræddu verða varðveitt á Þjóðskjalasafninu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Ljóst er að gríðarlegt magn skjala hefur orðið til í tengslum við heimsfaraldur kórónuveirufaraldursins. Mörg þessara gagna, meðal annars minnisblöð Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, verða varðveitt á Þjóðskjalasafninu.

Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður segir í samtali við Morgunblaðið að minnisblöðin, sem varða sóttvarnaaðgerðir innanlands, herðingar og tilslakanir til skiptis, sé vistuð hjá embætti landslæknis og í heilbrigðisráðuneytinu.

„Pappírsgögn eiga að skilast hingað eftir 30 ár en rafræn gögn eftir fimm ár,“ segir hún. „Við viljum helst, í samtímanum þar sem gögn verða til á rafrænan hátt, fá þau til okkar á rafrænu formi,“ bætir hún við.

Hrefna segist ekki sjá fyrir sér að kórónuveirugögnin verði flokkuð eftir efni, heldur sé líklegra að flokkað verði eftir innra skipulagi hverrar stofnunar.

Þess má geta að heilbrigðisráðherra greindi frá því í vikunni að hún hefði nú gefið út um 65 reglugerðir í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Þær verða væntanlega einnig vandlega varðveittar en um skjalavörslu segir á vef Þjóðskjalasafnsins:

„Varðveisla skjala opinberra aðila er lögbundin og eyðing þeirra óheimil nema með sérstakri heimild þar um. Í skjölum opinberra aðila eru upplýsingar um rekstur og stöðu viðkomandi embættis eða stofnunar, alla ákvarðanatöku og hvernig staðið er að henni, sem og um réttindi og skyldur einstaklinga og lögaðila. Þar er að finna skýringar á framgangi mála í gegnum tíðina. Öll þróun og breyting innan viðkomandi embættis eða stofnunar er þar vandlega skráð. Skjalasafnið er því mikilvægur hluti starfseminnar og í því er jafnframt að finna sögu viðkomandi skjalamyndara.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×