Innlent

Ey­þór um lækkun há­marks­hraða: „Um­ferðin getur hrein­lega leitað frekar inn í í­búða­byggð“

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hugnast ekki áform meirihlutans um að hámarkshraði á mörgum af helstu samgönguæðum borgarinnar verði lækkaður. Hann telur að lækkun hámarkshraða muni tefja fyrir almenningssamgöngum auk þess sem það geti skapað hættu á aukinni umferð um íbúðagötur.

Hámarkshraði á götum í eigu borgarinnar verður hvergi yfir fimmtíu kílómetrum á klukkustund samkvæmt nýsamþykktri áætlun borgarinnar. Skipulags- og samgönguráð borgarinnar samþykkti í dag stefnumörkun um hámarkshraða á borgargötum og sem verður lögð fyrir borgarráð til samþykktar í næstu viku. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði fram bókun vegna málsins í dag.

„Við höfum áhyggjur af því að þegar það er verið að lækka umferðarhraða á lykilakreinum, eins og við Suðurlandsbrautina, Bústaðaveg, Grensásveg og víðar, þá sé tvennt sem geti gerst. Annars vegar að afkastageta kerfisins minnkar og svo hitt að öryggisþátturinn gangi ekki upp, því að umferðin getur hreinlega leitað frekar inn í íbúðabyggð og nálægt skólum þegar fólk lendir í umferðarteppu á þessum lykilumferðarsvæðum,“ sagði Eyþór í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Spurður hvort það breyti yfir höfuð miklu á háannatímum hver hámarkshraðinn er, í ljósi þess hve þétt umferðin er, vísar Eyþór til umsagnar Strætó um málið.

„Strætó bókaði um það í sinni umsögn að þetta myndi ekki ganga upp fyrir þá að óbreyttu, þannig að þetta tefur líka almenningssamgöngur, það er líka ljóst að íbúar víða hafa áhyggjur af þessu. Þrátt fyrir að íbúar vilji hafa íbúðahverfin á lágum hraða, þá eru það þessir lykil tengivegir sem að við verðum að hafa í lagi,“ svaraði Eyþór.

En hvað leggið þið þá frekar til?

„Við viljum bæta umferðaröryggið, sérstaklega nálægt íbúðabyggð, bæta gangbrautir eins og snjallbrautir sem við höfum lagt til, og lagt áherslu á að snjallvæða borgina. Við viljum lækka hraða þar sem hætta er, til dæmis nálægt skólum og annað, en ekki að fara í að þrengja að umferðinni á helstu æðunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×