Erlent

Vinur Gaetz sagður vinna með yfirvöldum í rannsókn á mansali

Kjartan Kjartansson skrifar
Gaetz með Trump fyrrverandi forseta á hafnaboltaleik. Þingmaðurinn hefur verið einn einarðasti stuðningsmaður Trump á þingi.
Gaetz með Trump fyrrverandi forseta á hafnaboltaleik. Þingmaðurinn hefur verið einn einarðasti stuðningsmaður Trump á þingi. AP/Andrew Harnik

Kjörinn fulltrúi í Flórída og félagi bandaríska fulltrúadeildarþingmannsins Matts Gaetz er sagður vinna með saksóknurum að rannsókn á meintu mansali þeirra beggja. Þeir Gaetz eru sakaðir um að hafa greitt ungum konum fyrir kynlíf.

Gaetz er fulltrúadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins frá Flórída sem hefur verið einn harðasti stuðningsmaður Donalds Trump fyrrverandi forseta á þingi. Svo virðist sem að böndin hafi borist að honum eftir að rannsókn hófst á Joel Greenberg, fyrrverandi skattheimtumanni í Seminole-sýslu í Flórída, sem er grunaður um mansal á stúlku undir lögaldri.

Greenberg þessi hefur veitt saksóknurum dómsmálaráðuneytisins upplýsingar um hvernig þeir Gaetz greiddu konum fyrir kynlíf í reiðufé eða með gjöfum frá því í fyrra, að sögn Washington Post. Með því vonist Greenberg til þess að ná samkomulagi við saksóknarana um vægð.

Rannsóknin beinist að því hvort að Greenberg hafi séð Gaetz fyrir ungum konum til kynferðislegra athafna. Grunur leikur á að þeir hafi jafnvel báðir átt í kynferðislegu sambandi við sautján ára stúlku sem Greenberg er sakaður um að greitt fyrir kynlíf. Vísbendingar komu fram við rannsóknina um að Gaetz hefði gerst sekur um mansal með því að greiða stúlkum til að ferðast með sér á milli ríkja.

Neitar allri sök

Gaetz hefur hafnað því að hafa átt í kynferðislegu sambandi við sautján ára gamla stúlku og að hann hafi nokkru sinni greitt fyrir kynlíf. Hann hefur ekki verið ákærður eða sakaður um glæp í rannsókninni til þessa.

Sakar Gaetz fyrrum félaga sinn Greenberg um að reyna að klína á sig sök í málinu. Áður hefur hann fullyrt að málið tengist fjárkúgun gegn sér og föður sínum.

Siðanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings kannar nú samhliða rannsókn dómsmálaráðuneytisins ásakanir um að Gaetz hafi sýnt fólki myndir af nöktum eða berbrjósta stúlkum í þingsal


Tengdar fréttir

Kanna hvort þingmaður hafi sýnt nektarmyndir í þingsal

Siðanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings kannar nú ásakanir um að Matt Gaetz, þingmaður Repúblikanaflokksins frá Flórída, hafi sýnt myndir af nöktum konum í þingsal, framið kynferðisbrot og neytt ólöglegra lyfja. Dómsmálaráðuneytið rannsakar einnig hvort að Gaetz hafi greitt fyrir kynlíf og stundað mansal.

Bandamaður Trump rannsakaður vegna mansals

Bandarískur fulltrúadeildarþingmaður og náinn bandamaður Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, er sagður til rannsóknar vegna mansals. Hann er sagður grunaður um að greitt undir sautján ára gamla stúlku sem hann hafi átt í kynferðislegu sambandi við.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×