Erlent

Tugir mótmælenda handteknir í Minnesota

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mótmælandi kallar að lögreglu fyrir utan lögreglustöðina í Brooklyn Center.
Mótmælandi kallar að lögreglu fyrir utan lögreglustöðina í Brooklyn Center. AP/Christian Monterrosa

Fjörutíu mótmælendur voru handteknir í Brooklyn Center í Bandaríkjunum í nótt. Mikil reiði er á meðal borgarbúa eftir að lögregla skaut tvítugan svartan karlmann til bana á sunnudag. 

Mótmæli hafa geisað síðustu tvær nætur í þessari þrjátíu þúsund manna borg í Minnesota-ríki, skammt norður af Minneapolis. Útgöngubann var í gildi í nótt sem hafði engin áhrif á mótmælendur og beitti lögregla bæði hvellsprengjum og táragasi til þess að reyna að ná stjórn á aðstæðum.

Rétt eins og eftir drápið á George Floyd, öðrum svörtum karlmanni, í fyrra er nú mótmælt víðar um Bandaríkin. Í Portland kom til átaka á milli lögreglu og mótmælenda.

Lögreglan í Brooklyn Center birti myndband af því í nótt þegar lögreglukona með 26 ára starfsreynslu skaut hinn tvítuga Daunte Wright til bana á sunnudag. Svo virðist sem hún hafi ruglast á skambyssu sinni og rafbyssu.

Mótmælendur í borginni krefjast, rétt eins og áður, að lögregluofbeldi linni og fara fram á róttækar breytingar. Borgarstjórinn hefur lofað réttlæti og sagðist vilja að lögregluþjónninn verði rekinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×