Erlent

Stöðva notkun bóluefnis Johnson & Johnson tímabundið

Samúel Karl Ólason skrifar
Tæplega sjö milljónir manna hafa fengið bóluefni Johnson & Johnson í Bandaríkjunum.
Tæplega sjö milljónir manna hafa fengið bóluefni Johnson & Johnson í Bandaríkjunum. AP/Rogelio V. Solis

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum ætla að kalla eftir því að hlé verði gert á notkun bóluefnis Johnsons & Johnson vegna blóðtappatilfella sem hafa greinst. Alríkið mun hætta notkun bóluefnisins um tíma og einstök ríki hvött til þess að gera hið sama.

Þetta kemur fram í frétt New York Times þar sem segir að minnst sex konur á aldrinum 18 til 48 ára hafi fengið blóðtappa innan við tveimur vikum eftir bólusetningu. Ein þeirra sé dáin og önnur sé á sjúkrahúsi í alvarlegu ástandi.

Ákvörðunin hefur verið staðfest opinberlega, samkvæmt frétt CNN.

Miðillinn vísar í tilkynningu frá yfirmönnum Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna og Lyfjaeftirlitsins þar sem segir að blóðtappatilfellin séu sjaldgæf en alvarleg.  

Sjö milljónir þegar bólusettar með J&J

Nærri því sjö milljónir Bandaríkjamanna hafa fengið bóluefni J&J og níu milljónir skammta til viðbótar hafa verið sendir út til ákveðinna ríkja.

Hlé þetta verður notað til að rannsaka möguleg tengsl bóluefnisins við áðurnefnda blóðtappa og hvort halda eigi notkun bóluefnisins áfram. Boðað hefur verið til neyðarfundar hjá ráðgjafanefnd Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna, sem mun fara fram á morgun.

Langflestir Bandaríkjamenn hafa verið bólusettir með bóluefnum frá Pfizer-BioNTech og Moderna. Þau bóluefni eru í tveimur skömmtum og hafa ekki komið upp sambærileg mál varðandi þau og eru um 23 milljónir skammta framleiddir á viku í Bandaríkjunum.

Svipað mál hefur komið upp í Evrópu í tengslum við bóluefni AstraZeneca og Oxford en það bóluefni hefur ekki verið samþykkt til notkunar í Bandaríkjunum.

Aðeins þarf að taka einn skammt af bóluefni J&& auk þess sem auðveldara er að flytja og geyma bóluefni J&J. Ríkisstjórn Joe Bidens hafði bundið vonir við að geta bólusett hundruð þúsunda með bóluefninu í hverri viku.

Ríkisstjórnin hefur heitið því að bólusetja alla fullorðna Bandaríkjamenn fyrir lok næsta mánaðar og óljóst er hvort þessi ákvörðun muni hafa áhrif á þá áætlun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.