Innlent

Áslaug: Spurningar vöknuðu eftir ríkisstjórnarfund

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, segir spurningar hafa vaknað um lögmæti reglugerðar heilbrigðisráðherra um sóttvarnarhús eftir að hún var kynnt á ríkisstjórnarfundi 30. mars. 

Morgunblaðið greindi frá því um helgina að efast væri um lögmæti skyldudvalar fólks í sóttvarnarhúsi í minnisblaði dómsmálaráðuneytisins um reglugerð heilbrigðisráðherra. Minnisblaðið er dagsett 3. apríl en reglugerðin, sem héraðsdómur taldi síðar ekki hafa lagastoð, tók gildi 1. apríl.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, spurði Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi hvort hún hefði haft efasemdir um reglugerðina fyrst hún lét vinna lögfræðilega álitsgerð um efnið. Einnig hvort þær efasemdir hafi ekki verið viðraðar á ríkisstjórnarfundi.

Áslaug vísaði til þess að það væri ekki hlutverk dómsmálaráðuneytisins að kanna lagastoð reglugerða hjá öðrum ráðherrum. „En það vöknuðu upp spurningar hjá mér eftir ríkisstjórnarfundinn um þau gögn sem komu þar fram,“ sagði Áslaug.

Hún sagði minnisblaðið hafa fengið góðar viðtökur í heilbrigðisráðuenytinu og að það hafi verið skoðað. Síðar sama dag hafi þó verið greint frá því að látið yrði reyna á skyldudvölina fyrir dómstólum.

Velferðarnefnd Alþingis hefur gert athugasemd við að umrætt minnisblað hafi ekki fengist afhent þrátt fyrir beiðni þar um. Áslaug svaraði því til í fyrirspurnartíma að talið hefði verið að nefndin hefði einungis óskað eftir þeim gögnum sem hafi legið fyrir á ríkisstjórrnarfundi til grundvallar reglugerðinni. Minnisblaðið hafi ekki verið eitt þeirra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.