Fyrr í mánuðinum komu fram ásakanir á hendur þjálfaranum Henrik Petersen en hann á að hafa talað niðrandi til bæði starfsfólks og leikmanna liðsins sem og blaðamanna.
Eftir japl, jaml og fuður ákvað Henrik svo að stíga frá borði fyrir helgi en nú er ljóst að hann er ekki sá eini sem hættir hjá norska liðinu í þessum mánuði.
Jostein Flo, yfirmaður knattspyrnumála, hefur nefnilega sagt starfi sínu lausu hjá Strømsgodset eftir 25 ár í starfi og hann útskýrir hvers vegna í samtali við heimasíðu félagsins.
Jostein Flo slutter som sportssjef i Strømsgodset https://t.co/5FyrpwRIUL
— Nettavisen Sport (@NettavisenSport) April 10, 2021
„Mín ákvörðun að hætta tengist ekkert þeim ásökunum sem hafa verið á hendur Henrik Petersen en tengist því að félagið þarf á mánudaginn að byrja að finna nýjan þjálfara. Við getum sagt að það byrji nýr kafli í Strømsgodset á mánudag,“ sagði hann og hélt áfram:
„Þetta er mín ákvörðun að hætta sem yfirmaður knattspyrnumála. Ákvörðunin er ekki tekin eftir marga erilsama daga að undanförnu. Þetta er ákvörðun sem ég hef hugsað um í lengri tíma og það veit stjórn félagsins. Þetta hefur ekki verið auðvelt.“
Félagið skrifar í yfirlýsingu sinni að það sé ánægt með að Flo muni standa félaginu til boða með ráðagjafastörf næstu daga og vikur.