Fótbolti

Kane sagður vera búinn að ákveða framtíð sína

Arnar Geir Halldórsson skrifar
217 marka maður fyrir Tottenham
217 marka maður fyrir Tottenham vísir/getty

Enski markahrókurinn Harry Kane verður að öllum líkindum eftirsóttasti knattspyrnumaður heims þegar opnað verður fyrir félagaskipti í sumar.

Kane hefur verið á mála hjá uppeldisfélagi sínu , Tottenham, allan sinn feril og stimplað sig inn sem einn af bestu framherjum heims eftir að hafa verið lánsmaður í neðri deildum Englands fyrstu ár ferils síns.

Kane verður 28 ára í sumar og þrátt fyrir að hann hafi raðað inn mörkum fyrir Tottenham undanfarin ár hefur félagið ekki unnið neina keppni með Kane innanborðs.

The Athletic segir frá því í dag að Kane hafi gert upp hug sinn varðandi framtíð sína og að hann muni óska eftir sölu frá Tottenham, takist liðinu ekki að vinna sér keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Til þess þarf Tottenham að hafna í einu af fjórum efstu sætum ensku úrvalsdeildarinnar en liðið situr nú í 6.sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir West Ham sem er í 4.sæti sem stendur.

Stefnir í harða keppni milli Liverpool, Chelsea, Tottenham og West Ham um fjórða sætið dýrmæta.

Ljóst er að Kane mun kosta skildinginn því hann er samningsbundinn Tottenham til ársins 2024 en öll stærstu lið Evrópu eru sögð fylgjast grannt með gangi mála hjá Kane og er talið að Man Utd, Man City, Chelsea og Real Madrid séu tilbúin að legga allt í sölurnar við að klófesta Kane.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.