Fótbolti

Flestir áhorfendur í Rússlandi og Englandi á EM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Evrópumeistaramótið í knattspyrnu fer fram frá 11. júní til 11. júlí í sumar.
Evrópumeistaramótið í knattspyrnu fer fram frá 11. júní til 11. júlí í sumar. Alexander Demianchuk\TASS via Getty Images

Fresturinn fyrir borgirnar 12 sem halda EM í sumar til að tilkynna áform sín varðandi áhorfendur á leiki mótsins rann út í gær. Þær borgir sem ekki geta tekið við áhorfendum eiga á hættu að missa þá leiki sem þeim hefur verið úthlutað. Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, áætlar að taka ákvörðun um málið 19. apríl.

Evrópumeistaramótið sem átti að fara fram í fyrra, en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins, verður spilað frá 11. júní til 11. júlí.

London, Glasgow, Dublin, Amsterdam, Kaupmannahöfn, St. Pétursborg, Bilbao, München, Búdapest, Bakú, Róm og Búkarest eru borgirnar sem eiga að halda leiki. En hvað segja yfirvöld í þessum borgum og löndum?

London, England

Úrslitaleikurinn sjálfur fer fram á Wembley. Bretar vonast til að geta haf að minnsta kosti 20.000 áhorfendur á pöllunum.Matt Cardy/Getty Images

Úrslitaleikurinn sjálfur fer fram í London. Nánar tiltekið fer leikurinn fram á Wembley, ásamt sex öðrum leikjum.

Allir leikir Englands í riðlinum ásamt einum leik í 16-liða úrslitum, báðir undanúrslitaleikirnir og úrslitaleikurinn sjálfur verður spilaður á þessum 90.000 manna velli.

Bresk yfirvöld hafa sagt að allt að 10.000 áhorfendur verði heimilir á völlum landsins fá miðjum maí, og ótakmarkaður fjöldi frá 21. júní. Heimildir herma þó að enska knattspyrnusambandið hafi sagt því evrópska að í kringum 20.000 áhorfendur verði leyfðir þegar leikið verður í riðlinum, og mun fleiri þegar komið er í útsláttarkeppnina.

Enska knattspyrnusambandið hefur einnig tilkynnt að þeir séu tilbúnir að taka við leikjum sem ekki er hægt að spila annars staðar. Þeir leikir sem áttu að fara fram í Brussel hafa verið færðir til London.

Glasgow, Skotland

Yfirlvöld í Skotlandi hafa hingað til haldið í vonina um að Hampden Park í Glasgow geti tekið við áhorfendum á EM. Í gær gáfu þau svo leyfi fyrir 12.000 áhorfenum, sem er um fjórðungur af hámarksáhorfendafjölda á vellínum.

Á Hampden Park verða spilaðir fjórir leikir, þrír í riðlakeppninni, og einn í 16-liða úrslitum. Skotar fá því tvo heimaleiki, en leikir þeirra gegn Tékklandi og Króatíu í D-riðli verða spilaðir í Glasgow.

Dublin, Írland

Írar hafa áhyggjur af því að geta ekki haldið neina leiki á Aviva vellinum í Dublin eftir að írska knattspyrnusambandið sagði UEFA að þeir gætu ekki lofað lágmarksáhorfendafjölda.

Málið er enn til skoðunnar, en fjórir leikir eiga að fara fram í Dublin, þrír í riðlakeppni og einn í 16-liða úrslitum.

Amsterdam, Holland

Hollendingar munu taka við að minnsta kosti 12.000 áhorfendum á Johan Cruyff leikvanginn.Bongarts/Getty Images

Johan Cruyff leikvangurinn í Amsterdam mun geta tekið við að minnsta kosti 12.000 áhorfendum samkvæmt hollenska knattspyrnusambandinu.

Völlurinn getur tekið allt að 54.000 áhorfendur og mögulega verður hægt að fjölga áhorfendum í Amsterdam ef þróun kórónaveirufaraldursins verður hagstæð.

Það munu því þrír leikir í riðlakeppninni og einn leikur í 16-liða úrslitum fara fram í Hollandi.

Kaupmannahöfn, Danmörk

Þrír leikir í riðlakeppni og einn leikur í 16-liða úrslitum fara fram á Parken í Kaupmannahöfn. Danir munu leyfa að minnsta kosti 11.000 áhorfendur, en völlurinn getur tekið allt að 38.000.

Yfirvöld í Danmörku munu skoða hvort hægt verði að bæta við enn fleiri áhorfendum, en segja að það gæti verið nauðsynlegt að loka á þá ef að faraldurinn dreifist.

St. Pétursborg, Rússland

Krestovsky leikvangurinn, eða Gazprom Arena, er heimavöllur Zenit St Petersburg. Rússar ætla sér að fylla að minnsta kosti helminginn af þeim 68.000 sætum sem völlurinn býður upp á.Soccrates/Getty Images

Rússar búast við að geta fyllt að minnsta kosti helming sætana á Krestovsky vellinum í St. Pétursborg. Völlurinn tekur 68.000 áhorfendur og þar fara fram þrír leikir í riðlakeppninni, ásamt einum leik í 8-liða úrslitum.

Rússar vonast til að leikirnir geti verið spilaðir með lágmarks hömlum og eru að vinna í því að bjóða erlenda stuðningsmenn velkomna. Því hefur í það minnsta ekki verið hafnað af yfirvöldum.

Bilbao, Spánn

Yfirvöld á Spáni höfðu áður sagt að þeir væru tilbúnir að taka við um 13.000 áhorfendum á San Mames völlinn í Bilbao, svo lengi sem fjölda smita hefði fækkað nægilega mikið.

Spænska knattspyrnusambandið gaf þó frá sér tilkynningu í gær að það væri ómögulegt að standast þau skilyrði sem sett væru fyrir 11. júní og því gætu þeir ekki tekið við áhorfendum.

München, Þýskaland

Þjóðverjar hafa ekki enn gefið upp þann fjölda áhorfenda sem þeir geta tekið við, en kórónuverufaraldurinn hefur verið að sækja í sig veðrið þar í landi.

Heimavöllur Bayern, Allianz Arena, getur tekið við 70.000 áhorfendum og þar eiga að fara fram þrír leikir í riðlakeppninni og einn leikur í 8-liða úrslitum.

Búdapest, Ungverjaland

Í september tók Puskas leikvangurinn við 15.180 áhorfendum þegar Bayern München vann Sevilla í evrópska ofurbikarnum.

Völlurinn getur tekið við 68.000 áhorfendum, en yfirvöld í Ungverjalandi hafa ekki enn gert áætlanir sínar varðandi áhorfendur á Evrópumeistaramótinu opinberar.

Bakú, Aserbaídsjan

Þrír leikir í riðlakeppni og einn leikur í 8-liða úrslitum eru á dagskrá á Ólympíuleikvangnum í Bakú, en völlurinn getur tekið allt að 69.000 manns.

Ákvörðun hefur verið tekin um að Formúlu 1 kappaksturinn sem fer fram þar í landi fjórða til sjötta júní muni ekki taka á móti neinum áhorfendum. Enn á þó eftir að taka ákvörðun um Evrópumeistaramótið í knattspyrnu.

Róm, Ítalía

Ekki hefur enn verið ákveðið hversu margir áhorfendur verða leyfðir á Stadio Olimpico í Róm.Paolo Bruno/Getty Images

Ítalía og Tyrkland mætast í opnunarleik mótsins á Ólympíuleikvangnum í Róm þann 11. júní.

Samkvæmt ítalska knattspyrnusambandinu munu stjórnvöld reyna að finna bestu lausnina til að leyfa áhorfendur á þá þrjá leiki í riðlakeppninni og einn leik í 8-liða úrslitum.

Ítalska knattspyrnusambandið bætir við að Róm muni taka við áhorfendum, þó að endanlegur fjöldi hafi ekki verið ákveðinn.

Búkarest, Rúmenía

Stjórnvöld í Rúmeníu stefna á að bjóða 13.000 áhorfendur velkomna á þjóðarleikvanginn í sumar.

Völlurinn getur tekið allt að 54.000 áhorfendur í heildina, og verður þetta í fyrsta sinn sem leikið verður á stórmóti á þessum velli. Rúmenar búa sig því undir það að halda þrjá leiki í riðlakeppninni og einn leik í 16-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×