Fótbolti

Smitunum hjá liði Söru fjölgar enn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Lyon fagna Evrópumeistaratitlinum sem liðið vann í fyrra.
Leikmenn Lyon fagna Evrópumeistaratitlinum sem liðið vann í fyrra. getty/Alejandro Rios

Allur leikmannahópur Evrópumeistara Lyon er kominn í einangrun vegna fjölda kórónuveirusmita í herbúðum liðsins. Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir leikur með Lyon.

Fjórir leikmenn Lyon fengu jákvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi sem var tekið á mánudaginn. Kórónuveirusmitin hjá Lyon eru því alls orðin fimmtán talsins.

Seinni leik Lyon og Paris Saint-Germain í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu sem átti að fara fram í síðustu viku var frestað vegna smitanna hjá Lyon. Sara og stöllur hennar unnu fyrri leikinn á heimavelli PSG, 0-1.

Sigurvegarinn í einvíginu mætir Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Í hinni undanúrslitaviðureigninni eigast Chelsea og Bayern München við.

Lyon er í 2. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar með 45 stig, fjórum stigum á eftir toppliði PSG. Lyon á leik til góða.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.