Foden hetja Manchester City í tor­sóttum sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Phil Foden tryggði Manchester City sigur á Borussia Dortmund í kvöld.
Phil Foden tryggði Manchester City sigur á Borussia Dortmund í kvöld. EPA-EFE/PETER POWELL

Manchester City lagði Borussia Dortmund 2-1 í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Hinn ungi Phil Foden reyndist hetja City en sigurmarkið kom í uppbótartíma leiksins.

Heimamenn í City byrjuðu leikinn betur og komust yfir á 19. mínútu leiksins. Emre Can tapaði boltanum á miðjunni fyrir Dortmund.. Foden óð upp vinstir vænginn – fékk boltann frá Kevin De Bruyne – og gaf fyrir á Riyad Mahrez sem var hægra megin við markið. 

Mahrez setti boltann fyrir markið á De Bruyne sem renndi honum yfir línuna og kom heimamönnum yfir.

Eftir hálftíma leik fékk Emre Can dæmda á sig vítaspyrnu en eftir að atvikið var skoðað af myndbandsdómara leiksins þá var vítaspyrnudómurinn dreginn til baka. Dramatíkin var þó hvergi nærri búin en Dortmund jafnaði metin átta mínútum síðar, eða svo héldu gestirnir allavega.

Jude Bellingham var í þann mund að renna boltanum í netið eftir að hafa stolið honum af Ederson sem var of lengi að losa boltann er annars slakur dómari leiksins flautar aukaspyrnu. Taldi hann Bellingham hafa brotið á Ederson er hann stal af honum boltanum.

Þar sem dómari leiksins var búinn að flauta mátti myndbandsdómari leiksins ekki skoða um hvort brot hefði verið að ræða í raun og veru. 

Markið því dæmt af og City enn 1-0 yfir í hálfleik. Strax í upphafi síðari hálfleiks fékk Erling Braut Håland gullið tækifæri til að jafna metin. Hann hristi þá Rúben Dias, miðvörð Man City, af sér og var sloppinn einn í gegn. Ederson er hins vegar frábær í stöðunni einn á móti einum og varði frá norska framherjanum. 

Eftir það datt leikurinn aðeins niður en City var þó með öll völd á vellinum. Foden fór illa með gott færi eftir góðan undirbúning De Bruyne um miðik síðari hálfleiks og De Bruyne átti svo sjálfur skot sem flaug rétt framhjá marki gestanna. 

Heimamenn fengu það í andlitið á 84. mínútu leiksins að hafa ekki bætt við öðru marki sínu þegar þeir fengu tækifæri til. Bellingham nýtti þá styrk sinn og kom boltanum á norska framherjann sem lagði hann í hlaupaleið Marco Reus sem kláraði færið snyrtilega með skoti niðri í hornið og staðan orðin 1-1.

Var þetta fyrsta markið sem Manchester City fær á sig síðan í fyrstu umferð riðlakeppninnar.

Heimamenn lögðu ekki árar í bát og komust yfir á nýjan leik í uppbótartíma. De Bruyne átti þá frábæra sendingu á fjærstöngina þar sem İlkay Gündoğan náði til boltans og lagði hann fyrir Foden sem tryggði City 2-1 sigur og forystuna í einvíginu. 

Það er hins vegar ljóst að City á erfiðan leik fyrir höndum í Þýskalandi að viku liðinni þegar liðin mætast í síðari leik 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira