Innlent

Guðbrandur leiðir lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Guðbrandur Einarsson mun leiða lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi.
Guðbrandur Einarsson mun leiða lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi.

Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ, mun leiða lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðreisn. Guðbrandur, sem oftast er kallaður Bubbi að því er segir í tilkynningunni, er fyrrum formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja.

„Ég vil vinna að breytingum sem leiða til jafnræðis, aukins frelsis og meiri virðingar fyrir fjölbreytni mannlífsins,“ er haft eftir Guðbrandi í tilkynningunni. „Í rúma tvo áratugi hef ég tekið þátt í réttindabaráttu launafólks og unnið að bættum hag samfélagsins míns með þátttöku í sveitarstjórnarmálum. Það er vegferð sem ég vil halda áfram á þingi. Þar er mikilvægast að styðja við og styrkja það nauðsynlega öryggisnet sem þarf að vera til staðar í Suðurkjördæmi.“

Auk þess að gegna embætti forseta bæjarstjórnar hefur Guðbrandur meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri Verslunarmannafélags Suðurnesja, verslunarstjóri Kaskó í Keflavík og framkvæmdastjóri Nýs miðils, sem rak útvarpsstöðina Brosið og vikublaðið Suðurnesjafréttir.

Hann hefur verið bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ um árabil og var formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja í rúm 20 ár. Þá sat hann í stjórn Landssambands íslenskra Verslunarmanna og var formaður sambandsins í sex ár auk þess sem hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir ASÍ og sat meðal annars í miðstjórn sambandsins í 14 ár.

Listi Viðreisnar í Suðurkjördæmi í heild sinni verður kynntur síðar en uppstillingarnefnd vinnur nú að því að setja saman lista.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×