Innlent

Festu heitin í stein við eldgosið

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Þau Sól Rós Hlynsdóttir og Jón Halldór Unnarsson staðfestu trúlofunarheit sín við eldsstöðvarnar í dag. Prestur var staddur við athöfnina fyrir tilviljun og blessaði parið. 
Þau Sól Rós Hlynsdóttir og Jón Halldór Unnarsson staðfestu trúlofunarheit sín við eldsstöðvarnar í dag. Prestur var staddur við athöfnina fyrir tilviljun og blessaði parið.  Iceland Wedding Planner

Par sem staðfesti trúlofunarheit sín við eldgosið í Geldingadölum í morgun segir það hafa verið einstaka stund. Prestur sem átti leið hjá þar sem þau voru uppábúinn bauðst til að gefa þau saman. Þau voru ekki alveg til í það en fengu blessun. 

Nokkur hundruð manns voru mættir við gosstöðvarnar fyrir opnun þar klukkan sex í morgun. Meðal þeirra voru þau Sól Rós Hlynsdóttir og Jón Halldór Unnarsson sem staðfestu trúlofunarheit sín þar.

„Okkur fannst tilvalið að staðfesta trúlofun okkar við eldgosið. Við erum búin að vera saman í fimm ár og trúlofuð í þrjú og vildum festa athöfnina í stein með því að staðfesta heitin formlega við elgosið í dag,“ segir Sól Rós Hlynsdóttir sem vildi þó ekki gefa upp hvenær stóri dagurinn á að renna upp.

Parið fékk fyrirtækið Iceland Wedding Planner til að skipuleggja athöfnina. 

Það voru teknar margar fallegar myndir af parinu í dag. Iceland Wedding Planner

„Þetta var ævintýralegt, frábært veður og fullkomnar aðstæður. Við vorum í göngufötum þar til við vorum komin upp að gosi og þá fór ég í brúðarkjól og Jón í jakkaföt. Það var ekki tekin sú áhætta að ganga í sparifötunum,“ segir Sól Rós og hlær. 

Hún segir að prestur hafi verið á svæðinu fyrir tilviljun og hafi boðist til að gefa þau saman. 

„Það var verið að taka myndir af okkur og allt í einu kemur maður gangandi upp að ljósmyndaranum okkar og segist vera prestur. Hann bauðst til að gefa okkur saman en það var ekki alveg planið að þessu sinni. Þá bauðst hann til að leggja blessun sína yfir okkur í staðinn sem hann og gerði. Við stöðum fyrir framan og hann lagði hendur sínar á höfuð okkar og óskaði okkur svo innilega til hamingju og alls hins besta,“ segir Sól Rós.

Sól Rós segir að presturinn heiti Pétur en vissi ekki frekari deili á honum. 

Parið naut útsýnisins við eldgosið eftir athöfnina.Iceland Wedding Planner

Parið hélt uppá daginn við eldgosið og saup á kampavíni og fékk sér osta. 

Sól Rós er afar ánægð með daginn. 

„Þessi stund okkar styrkir sambandið okkar enn frekar, þetta var einstakt,“ segir Sól Rós að lokum. 


Tengdar fréttir

Tvö til þrjú hundruð manns mættir klukkan sjö í morgun

Áætlað er að tvö til þrjú hundruð manns hafi verið mættir á gossvæðið klukkan sjö í morgun. Reglubundnar rútuferðir frá Grindavík upp að stikuðu gönguleiðinni að gosinu í Geldingadölum hófust í morgun. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.