Fótbolti

Chelsea sló út silfurliðið og kvað Wolfsburggrýluna í kútinn

Sindri Sverrisson skrifar
Pernille Harder og stöllur hennar í Chelsea fagna marki í sigrinum gegn Wolfsburg.
Pernille Harder og stöllur hennar í Chelsea fagna marki í sigrinum gegn Wolfsburg. AP/Zsolt Szigetvary

Chelsea komst í dag í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta kvenna þegar liðið vann 3-0 sigur gegn Wolfsburg í Búdapest. Chelsea vann einvígi liðanna samtals 5-1.

Wolfsburg hefur um árabil verið eitt albesta félagslið heims og lék til úrslita gegn Söru Björk Gunnarsdóttur og stöllum í Lyon í fyrra, sem og árið 2018 þegar Sara var í Wolfsburg.

Wolfsburg hafði raunar slegið Chelsea þrisvar út úr Meistaradeildinni, frá og með árinu 2016, þegar liðin mættust núna en í þetta sinn vann Chelsea öruggan sigur.

Mæta Bayern eða Rosengård

Danska markadrottningin Pernille Harder kom Chelsea yfir í dag úr vítaspyrnu, gegn sínu gamla liði, á 27. mínútu. Samantha Kerr bætti fljótt við öðru marki og útlitið var þar með afar gott fyrir Chelsea í þessum útileik, sem leikinn var í Búdapest vegna kórónuveirufaraldursins.

Wolfsburg tókst ekki að svara fyrir sig og Francesca Kirby innsiglaði sigur Chelsea tíu mínútum fyrir leikslok.

Chelsea er því komið í undanúrslit í þriðja sinn á síðustu fjórum árum og mætir þar Bayern eða Rosengård. Bayern, sem Karólína Lea Vilhjálmsdóttir leikur með, er 3-0 yfir í einvígi sínu við Rosengård, lið Glódísar Perlu Viggósdóttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×