Um­fjöllun: Ís­land - Frakk­land 0-2 | Frakkar of stór biti fyrir ís­lenska liðið í dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessi mynd lýsir leik dagsins ágætlega. Íslenska liðið gerði sitt besta en það franska var einfaldlega of sterkt.
Þessi mynd lýsir leik dagsins ágætlega. Íslenska liðið gerði sitt besta en það franska var einfaldlega of sterkt. EPA-EFE/TAMAS VASVARI

Íslenska U-21 árs landsliðið tapaði 2-0 gegn Frakklandi í loka leik riðlakeppni Evrópumótsins í dag. Líkt og gegn Danmörku þá var íslenska liðið lítið með boltann og nýtti franska liðið færi sín leiðinlega vel í fyrri hálfleik. Gerðu þeir þar með út um leikinn þó íslenska liðið hafi átt fína spretti í síðari hálfleik.

Breytt byrjunarlið

Nokkrar breytingar voru gerðar á byrjunarliði Íslands frá 0-2 tapinu gegn Dönum. Eðlilega svo sem þar sem þetta var þriðji leikurinn á sex dögum og þá voru fjórir lykilmenn kallaðir upp í A-landsliðið.

Davíð Snorri Jónasson ákvað að stilla upp í 5-3-2 leikkerfi í dag frekar en 4-3-3 líkt og síðustu tveimur leikjum. Liðsuppstillinguna má sjá hér að neðan og segja má að hún hafi í raun gengið ágætlega.

Frakkarnir of sterkir í fyrri hálfleik

Fyrstu fimmtán mínútur leiksins voru ljómandi fínar. Eðlilega var Ísland mjög aftarlega á vellinum og þegar Frakkar hófu uppspil sitt var allt íslenska liðið á eigin vallarhelmingi. Það gekk hins vegar mjög vel að halda Frökkum í skefjum og komust þeir í raun lítt áleiðis framan af leik.

Það breyttist allt með snöggri sókn á 17. mínútu Frakkarnir unnu þá boltann og náðu íslenska liðinu er það var ekki búið að stilla upp varnarlega. Alexis Claude-Maurice fékk þá góða sendingu upp í hægra milli-svæðið [e. half-space].

Claude-Maurice gaf þessa líka fínu sendingu út í teiginn þar sem fyrirliði Frakka, Mattéo Guendouzi skoraði með góðu skoti. Guendouzi var einn á auðum sjó og hægt er að setja spurningamerki við miðjumenn Íslands sem virtust ekki ná að elta hann uppi.

Leikurinn hélt svo áfram í sama fari. Íslenska liðið lá til baka og reyndi að sækja hratt þegar það átti við. Það gekk illa og íslenska liðið virtist ekki þora að halda boltanum innan liðs þegar það var möguleiki.

Fyrir utan mögulega tvær hornspyrnur þar sem Frakkar áttu annars vegar skalla yfir og svo hins vegar þegar Andri Fannar Baldursson bjargaði á línu þá komst liðið ekki oft í gegnum þétta vörn íslenska liðsins.

Á 38. mínútu endurtók sagan sig hins vegar. Að þessu sinni slapp markamaskína Frakka - Odsonne Édouard - einn í gegn í vinstra milli-svæðinu eftir sendingu vinstri bakvarðarins Faitout Maouassa.

Édouard lék boltanum upp að marki Íslands og lyfti honum snyrtilega yfir Elías Rafn Ólafsson í marki Íslands. Færið var þröngt og mögulega hefði Elías Rafn geta staðið örlítið lengur uppréttur en færið var virkilega vel klárað hjá þessum magnaða framherja. Engin tilviljun að hann sé markahæsti U-21 árs landsliðsmaður Frakka frá upphafi.

Staðan orðin 2-0 og þannig var hún í hálfleik. Í raun má segja að Frakkar hafi fengið tvö fín færi í opnum leik og skorað úr þeim báðum. Leiðinlega góð nýting hjá franska liðinu.

Meira líf í síðari hálfleik

Síðari hálfleikur var nokkuð líkur þeim fyrri en það vakti athygli þegar Andri Fannar fór illa með miðjumenn Frakka þegar íslenska liðið þorði loks að spila boltanum út úr öftustu línu. Kolbeinn Birgir Finnsson átti góða sendingu á Brynjólf Andersen Willumsson sem náði ekki að taka við boltanum sem rann til Alban Lafont í franska markinu.

Mikael Neville Anderson átti svo fyrsta skot Íslands á markið þegar tæp klukkustund var liðin en hann og Brynjólfur léku þá vel saman. Færið var þröngt og Lafont varði vel í marki Frakklands.

Íslenska liðið byggði nokkrum sinnum upp fínar sóknir sem voru allar mjög svipaðar. Finnur Tómas fann Andra Fannar sem kom boltanum út til vinstri á Kolbein Birgi sem gaf fyrir en því miður voru varnarmenn Frakklands alltaf á undan í boltann.

Bestu sóknir Íslands fóru nær allar í gegnum Andra Fannar í dag.Peter Zador/Getty Images

Bæði lið gerðu urmul skiptinga í síðari hálfleik og tempó leiksins minnkaði því töluvert meðan menn voru að koma sér inn í leikinn. Þá hefur hitinn eflaust spilað sinn þátt en það var vel yfir 20 stiga hiti er leikurinn hófst.

Það fór á endanum svo að Frakkar unnu 2-0 sigur og fylgja þar með Dönum í 8-liða úrslit mótsins á meðan Ísland endaði á botni riðilsins án stiga.

Bestu menn Íslands

Elías Rafn kom inn í markið og stóð sig með prýði. Hann er eflaust mjög pirraður út í sjálfan sig fyrir að standa ekki aðeins lengur í síðara marki Frakklands en markvörðurinn gerði oft mjög vel þegar kom að því að grípa fyrirgjafir eða grípa inn í sóknir Frakka þegar það átti við.

Elías Rafn átti fínan leik í marki Íslands.Peter Zador/Getty Images

Andri Fannar átti svo fínan leik og eins og áður sagði fóru nær allar íslenskar sóknir í gegnum hann. Mikael Neville Anderson var einnig sprækur og var oftar en ekki mesta ógn Íslands. Frakkarnir voru klókir og brutu á honum oftar en einu sinni til þess að koma í veg fyrir sóknir íslenska liðsins.

Kolbeinn Birgir átti ágætis leik í vinstri vængbakverðinum en fyrirgjafir hans hefðu mátt rata á íslenska leikmenn þó það sé erfitt þegar aðeins einn slíkur er í teig andstæðinganna gegn þremur til fjórum frönskum leikmönnum. Þá var nafni hans Kolbeinn Þórðarson sprækur framan af á miðjunni.

Kolbeinn Þórðarson í leiknum í dag.EPA-EFE/TAMAS VASVARI

Raunar má færa ágætis rök fyrir því að enginn í íslenska liðinu hafi átt sérstaklega slæman leik en að sama skapi stóð í raun enginn upp úr.

Það sem má bæta

Mótherjar Íslands eru ef til vill að skora of einföld mörk. Þá verður miðja liðsins að vera betur á tánum þegar kemur að atriðum eins og fyrra marki Frakklands. Hvernig Guendouzi var einn á auðum sjó er ekki boðlegt.

Þá þarf íslenska liðið að nýta föst leikatriði betur en þau gengu engan veginn upp í dag. 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.