Fótbolti

Sævar samdi við Breiðablik en spilar áfram í Breiðholti

Sindri Sverrisson skrifar
Sævar Atli Magnússon við gervigrasvöllinn í Breiðholti.
Sævar Atli Magnússon við gervigrasvöllinn í Breiðholti. Skjáskot/Leiknir.com

Sævar Atli Magnússon, fyrirliði Leiknis R., mun leika með Leiknismönnum í Pepsi Max-deildinni í sumar en að tímabilinu loknu fer hann úr Breiðholtinu í Kópavoginn til Breiðabliks.

Frá þessu greindu Breiðablik og Leiknir í dag. Á vef Blika segir að félagaskiptin muni ganga í gegn eftir tímabilið sem framundan er. Áhuginn á Sævari Atla hafi verið mikill og Blikar séu hæstánægðir með að hann skuli hafa valið Breiðablik. Ekki kemur fram til hve langs tíma samningur Sævars við Breiðablik er.

Sævar Atli er tvítugur og skoraði 13 mörk í 20 leikjum í Lengjudeildinni í fyrra, þegar Leiknir vann sér sæti í efstu deild. Allls hefur hann skorað 31 mark í 80 leikjum í næstefstu deild. 

Sævar náði að leika sinn fyrsta leik í úrvalsdeild þegar Leiknir spilaði þar árið 2015, þá aðeins 15 ára gamall.

„Nú er þetta búið. Nú er bara fókusinn á að bæta minn leik og spila með Leikni í sumar, uppeldisfélaginu mínu. Annað tímabil í efstu deild og þetta verður ógeðslega spennandi og krefjandi verkefni. Ég hef mikla trú á því að við gerum vel í sumar," sagði Sævar í viðtali við Leiknir.com.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.