Fótbolti

Búinn á því eftir leikinn gegn Íslandi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Carlo Holse liggur óvígur eftir en Stefán Teitur Þórðarson er svektur í bakgrunni myndarinnar.
Carlo Holse liggur óvígur eftir en Stefán Teitur Þórðarson er svektur í bakgrunni myndarinnar. Chris Ricco/Getty

Carlo Holse, leikmaður U21 árs landsliðs Dana, spilaði í 90 mínútur er Danir unnu 2-0 sigur á Íslandi í gær. Þetta var fyrsti leikur Holse í lengri tíma.

Holse er á mála hjá Rosenborg og þar hefur hann ekki spilað leik lengi; bæði vegna þess að tímabilið er ekki í gangi og vegna harðra sóttvarnarreglna.

„Ég finn fyrir þessu í dag. Ég hef ekki spilað í fjóra mánuði og hvað þá í 90 mínútur svo ég er aðeins þreyttari en vanalega. En það var auðvitað gott að spila 90 mínútur aftur,“ sagði Holse á blaðamannafundi dagsins.

„Ég held að þetta hafi verið leikur sem lá vel fyrir líkamann. Ef við hefðum spilað gegn Frakklandi, þar sem við hefðum þurft að hlaupa meira til baka, þá myndi maður kannski finna enn meira fyrir því í dag.“

Holse spilar yfirleitt sem vinstri vængmaður en í gær, gegn íslenska liðinu, var hann í stöðu vinstri bakvarðar.

„Mér líður vel þegar við erum með boltann og það er ekki vandamál. Það er þetta varnarlega sem ég verð að vera einbeittur fyrir og ekki gera eitthvað heimskulegt, því það koma upp stöður sem ég er ekki vanur.“

„En þessi leikur í gær hentaði vel því við lentum ekki undir mikilli pressu varnarlega en þegar það gerðist þá fannst mér við leysa það fínt,“ sagði Holse.

Ísland mætir Frökkum á morgun á meðan Danir spila við Rússa.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.